145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega hefði verið betra ef haldið hefði verið áfram í þeirri samfellu sem var fyrirhuguð. Hv. þingmaður kom ágætlega inn á það hvað lá þar undir. Þetta var vel fjármagnað með tekjum af veiðigjöldum, orkuskatti og auðlegðarskatti. Núna óttast maður að þegar þenslan fer að aukast í ákveðnum geirum á höfuðborgarsvæðinu, sem nær alls ekki út til landsbyggðarinnar, þá verði það notað sem afsökun fyrir því að ekki verði farið í innviðauppbyggingu vítt og breitt um landið, sem hefði átt að vera komin á fljúgandi ferð.

Ég man vel eftir því að það vakti athygli eftir hrunið, þegar maður hefði mátt búast við því að ekki væru miklir fjármunir til nýframkvæmda, t.d. í vegakerfinu, að síðasta ríkisstjórn lagði rúma 3,5 milljarða í framkvæmdir á Vestfjarðavegi 60. Þær framkvæmdir sem eru í gangi núna, eins og Norðfjarðargöng, voru allar ákveðnar og þeim hrint af stað af hálfu fyrri ríkisstjórnar. Það hefur ekkert gerst undanfarin tæpu þrjú ár í samgöngum sem er neinn burður í. Menn hafa bara setið með hendur í skauti og ekki haft neinn metnað til þess að byggja upp innviði samfélagsins í samgöngum. Það er umhugsunarefni. Ég er hrædd um að það hefði heyrst hljóð í horni hefði vinstri stjórn verið við völd núna með yfir 20 milljarða afgang á fjárlögum.