145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:43]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þau fjáraukalög sem við erum nú að fjalla um líkt og fjárlögin sjálf, þessa árs og næsta, eru sárgrætilegur vitnisburður um þá óheillastefnu sem ríkisstjórnin hefur tekið í málefnum landsins á nánast öllum sviðum. Við sjáum ekki aðeins endurspeglast slælega áætlunargerð og einkennilega stjórnsýslu, sem ég skal rökstyðja nánar á eftir, heldur líka fullkomið skeytingarleysi um þá málaflokka sem miklu varða fyrir hag landsmanna og þá er ég sérstaklega að hugsa um þá samfélagshópa sem eiga undir högg að sækja. Nærtækast í þessu sambandi er auðvitað að benda á þá nöturlegu staðreynd að í fjáraukalögum skuli engin viðleitni vera í þá átt að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja til jafns við aðra samfélagshópa, að þeir skuli einir eiga að bíða eftir sínum leiðréttingum til 1. janúar á næsta ári þegar aðrir hópar fá afturvirka leiðréttingu frá 1. maí. Það vantaði ekki digurbarkalegar yfirlýsingar hér fyrir kosningarnar síðustu frá sjálfstæðismönnum, sem stýra núna fjármálaráðuneytinu, um að öllu skyldi kippt í liðinn sem varðaði kjör þessara hópa, sérstaklega aldraðra, þegar Sjálfstæðisflokkurinn yrði kominn til valda. Persónuleg bréf voru send inn á heimili hvers einasta eldri borgara í landinu þar sem lofað var gulli og grænum skógum til bóta fyrir einmitt þann hóp. Ekki vantaði landsfundarsamþykktirnar til að styðja hin frómu áform.

Hverjar eru svo efndirnar?

Við vitum auðvitað að á árunum eftir hrun, meðan verið var að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl og ausa bátinn og berja í bresti eftir efnahagsofviðrið, þá þurftu landsmenn að færa fórnir og gerðu það. Það gerðu allir. En nú þegar efnahagur landsins hefur batnað og tími er kominn til að endurgjalda fórnir almennings, hvað gerist þá? Hverjir eru það sem ríkisstjórnin tekur upp á arma sína? Það er hálaunafólkið sem nýtur skattkerfisbreytinganna sem voru sérstaklega hannaðar fyrir það með afnámi auðlegðarskattsins. Það eru hópar eins og alþingismenn og háttsettir embættismenn sem fá afturvirkar launaleiðréttingar. Það eru útgerðarmenn sem ríkisstjórnin sá sérstaka ástæðu til að mylja undir nú þegar sjávarútvegurinn skilar mestri framlegð í sögu sinni með 70–80 milljarða kr. fjármagnsmyndun, eins og hefur komið fram hér fyrr í dag.

Á sama tíma og sjávarútvegsfyrirtækin greiða sjálfum sér á annan tug milljarða króna í hreinan arð skilar þessi atvinnugrein samfélaginu 5–6 milljörðum í veiðileyfagjald af því að ríkisstjórnin sem nú situr sá sérstaka ástæðu til að lækka veiðileyfagjaldið um allt að því helming. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sá til þess að öflugasta atvinnugrein landsins, atvinnugrein sem veltir tugum milljarða króna og hefur aldrei í sögu sinni búið við meiri velgengni og gróða, væri stikkfrí gagnvart efnahagslegri endurreisn landsins. Grein sem greiddi ríflega 13 milljarða í veiðigjöld árið 2013 þarf nú aðeins að greiða nokkra milljarða.

Á sama tíma er þjóðarsjúkrahúsið komið að fótum fram. Rifjast þá upp digurbarkalegar yfirlýsingar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, formanns hv. fjárlaganefndar, frá því fyrir síðustu kosningar. Þá vantaði ekki yfirlýsingarnar um það hvernig yrði búið í haginn fyrir Landspítalann þegar Framsóknarflokkurinn yrði kominn til valda. (VigH: … á tveimur og hálfum …) Hér fljótum vér eplin, sögðu hrossataðskögglarnir í sinni tíð.

Við sjáum líka einkavæðingaráform í heilsugæslunni, áform sem verið er að hrinda í framkvæmd fram hjá þjóðþinginu og án samráðs við það, og við sjáum hvernig auðmenn og hálaunafólk njóta kjarabóta og skattalækkana en láglaunafólkið, barnafólkið, öryrkjarnir og aldraða fólkið fær að sitja eftir.

Frú forseti. Þegar ég var alast upp þá kom það stundum fyrir að hrekkjusvínin í hverfinu gengu um garða og brutu og mölvuðu það sem önnur börn höfðu byggt upp, hvort sem það voru kofahró, vegir sem lagðir höfðu verið í sandinn eða lítil leiði yfir dáin gæludýr eða fugla. Þetta var eyðilagt, eitthvað sem litlar hendur glöddu sig við að gera og hrekkjusvínin komu og skemmdu — af því bara, af því að það var hægt. Þannig gengur lífið hjá óþroskuðum börnum, en það er sorglegt svo ekki sé meira sagt að verða vitni að sömu hegðun hjá þeim aðilum sem hafa ráð þjóðarinnar í hendi sér. Hér á ég við þá áráttu núverandi ríkisstjórnar að afnema allt sem fyrrverandi ríkisstjórn gerði, ekki vegna þess að rök eða ástæður séu svo ríkar heldur bara af því að það voru verk fyrri ríkisstjórnar — af því bara. Eitt átakanlegasta dæmið um þetta er sú ákvörðun að nema úr gildi fjárfestingaráætlun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, áætlun sem gerði ráð fyrir öflugri uppbyggingu samfélagslegra innviða sem lið í efnahagslegri og samfélagslegri endurreisn eftir hrun, vegagerð, jarðgangagerð, efling rannsóknastofnana og fleira sem upp mætti telja.

Markmið fjárfestingaráætlunar fyrri ríkisstjórnar var með öðrum orðum að styðja við hagvöxt og fjölbreytni í atvinnulífi. Hún var liður í nýrri sókn eftir efnahagshrunið og henni var ætlað að styðja við efnahagsbata og hagvöxt. Hún var sett fram á grunni þess að ríkissjóður endurheimti stóran hluta af þeim fjármunum sem lagðir voru fram til að endurfjármagna bankakerfið, og að með nýjum lögum sem þá höfðu verið sett um veiðigjöld fengi þjóðin aukna hlutdeild í arði sjávarauðlinda. Þarna var gerð tillaga um verkefni sem áttu að leiða af sér fjárfestingu fyrir um 88 milljarða kr. og þar af var gert ráð fyrir að 39 milljarðar yrðu fjármagnaðir úr þessari fjárfestingaráætlun. 17 milljarðar áttu að koma af sérstöku veiðileyfagjaldi og leigu aflahlutdeilda og 22 milljarðar áttu að koma af arði og sölu eignarhluta ríkisins í bönkunum. Þetta átti að renna í samgönguáætlun og jarðgangaáætlun, til eflingar Rannsóknarsjóði og Tækniþróunarsjóði og til atvinnuþróunar og sóknaráætlana á vegum landshlutasamtakanna. (Gripið fram í.)

Mér finnst rétt á þessum tímapunkti, af því að formaður fjárlaganefndar gjammar hér stöðugt fram í, að minna einmitt núna á þessa fjárfestingaráætlun. Það væri ýmislegt öðruvísi umhorfs í landi okkar ef henni hefði verið hleypt af stokkum eins og að var stefnt. Nú hlær hv. þm. Vigdís Hauksdóttir eins og kjáni, formaður fjárlaganefndar Alþingis, sem er að bjóða upp á þessi fjáraukalög. (Gripið fram í.)

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar gat hins vegar ekki frekar en hv. þm. Vigdís Hauksdóttir horft til þessara þjóðþrifa heldur afnam áætlunina og braut hana niður af því að það var hægt. Nú erum við komin með völdin, mátti heyra hugsanir þeirra hljóma — af því að það var hægt. Þar með var með glotti álíka gáfulegu og því sem leikur um andlit hv. formanns fjárlaganefndar núna (Gripið fram í.) horfið frá nauðsynlegri innviðauppbyggingu …

(Forseti (ValG): Forseti biður hv. þingmenn að gæta orða sinna gagnvart öðrum þingmönnum.)

Virðulegi forseti. Glottið á andliti hv. þingmanns er hálfáreitandi hér á meðan þingmenn flytja ræður sínar í fullri alvöru um grafalvarleg mál sem snerta líf og landshagi þessarar þjóðar. Það er eiginlega ekki upp á það bjóðandi (Gripið fram í.) að maður tali hér undir frammíköllum og horfi framan í glottandi fólk. (VigH: Mega þingmenn sitja í salnum?) Svo ég fái nú að ljúka máli mínu.

(Forseti (ValG): Forseti vill biðja báða hv. þingmenn að gæta orða sinna.)

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að ljúka máli mínu og velja sjálfri mér orð í þessari ræðu og vona að ég fái að gera það óáreitt. Ég var komin þar sögu að núverandi ríkisstjórn afnam fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar bara af því að það var hægt og hætti þar með við nauðsynlega innviðauppbyggingu, m.a. samgönguframkvæmdir sem eru auðvitað nauðsynleg forsenda þess að byggð fái þrifist í landi okkar, að atvinnulíf fái að þrífast og dafna og að landshlutarnir standi jafnfætis og séu samkeppnisfærir hver við annan. Eins og alþjóð veit og ekki síst landsbyggðin þá eru aðstæður mjög mismunandi milli landshlutanna því að víða hefur verið viðvarandi byggðaröskun undanfarin ár þar sem margar byggðir eiga undir högg að sækja. Samgöngur eru eins og við vitum lykilatriðið til að byggðirnar geti risið upp úr erfiðleikum og orðið samkeppnisfærar á ný og byggt upp atvinnulíf, laðað til sín mannafla og tækifæri, t.d. í ferðaþjónustunni sem er auðvitað mikilvægt að dreifist um landið og er hraðvaxandi atvinnugrein. Þess í stað horfum við núna upp á vegakerfi sem liggur undir skemmdum og það eina sem verið er að gera í þeim efnum er, eins og hefur verið bent á í fyrri ræðum, verk og ákvarðanir fyrri ríkisstjórnar.

Virðulegi forseti. Það er ömurlegt að horfa upp á áherslur ríkisstjórnarinnar við ráðstöfun fjármuna ríkisins. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir þetta ár segir eiginlega allt sem segja þarf í því efni.

Ég vek líka athygli á nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar við frumvarpið þar sem er rökstutt vel og ítarlega hvernig frumvarpið gengur í raun gegn lögum um fjárreiður ríkisins þar sem kveðið er á um hlutverk fjáraukalaga en þeim er ætlað að taka til óhjákvæmilegra málefna, t.d. ófyrirséðra atvika á borð við nýja kjarasamninga eða nýja löggjöf, en ekki til áforma um ný verkefni eða rekstrarhalla einstakra ríkisstofnana. Frumvarpið sem við erum að ræða tekur hins vegar til fyrirséðra hluta sem eðlilegt hefði verið að áætla fyrir. Í áliti minni hlutans er líka á það bent, sem mér finnst rétt að vekja athygli á, að tekjuáætlunin er mjög ónákvæm, t.d. varðandi arðgreiðslur Landsbankans og fleira í þeim dúr. Það er orðið ljóst, eins og þar er tekið fram, að skerðingar barnabóta hafa verið of miklar og það hefur ekki tekist að jafna stöðu barnafjölskyldna að því marki sem æskilegt hefði verið.

Virðulegi forseti. Það kemur margt sorglegt upp í hugann þegar maður skoðar þetta frumvarp til fjáraukalaga.

Ég vil að lokum árétta að ég tek undir breytingartillögu minni hluta fjárlaganefndar þar sem gerð er sú sanngjarna tillaga að kjör eldri borgara og öryrkja verði bætt í samræmi við hækkun lægstu launa og að greiðslur hækki frá 1. maí á þessu ári eins og laun á almennum vinnumarkaði. Það er eiginlega það minnsta sem hægt er að gera fyrir þennan hóp og það væri þinginu til skammar að gera það ekki, sérstaklega í ljósi þess að alþingismenn taka sjálfir við launaleiðréttingu sem er afturvirk. Þetta mundi kosta um 6,6 milljarða kr. sem er ekki mjög há upphæð í stóra samhenginu. Hún lætur nærri að vera sú upphæð sem útgerðinni var hlíft við að greiða í veiðigjald þegar þessi ríkisstjórn forgangsraðaði í þágu þeirra ríku og fáu á kostnað hinna mörgu og smáu.