145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:59]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er svo hjartanlega sammála hv. þingmanni. Þetta er nefnilega brauðmolahagfræðin í sinni verstu mynd, hún er svona. En að þakka einni öflugustu atvinnugrein landsins það sérstaklega að greiða skatta og skyldur til samfélagsins, eins og við gerum öll, hvert einasta atvinnufyrirtæki í landinu gerir það, hver einasti einstaklingur gerir það, er ekki hin eðlilega og sanngjarna sýn sem við viljum að sé á þátttöku þegnanna, þar á meðal atvinnugreinanna, í efnahagslegri uppbyggingu landsins.

Eins og ég kom inn á í ræðu minni færðum við öll fórnir í hruninu, bæði atvinnufyrirtæki og einstaklingar. Nú þegar komið er að því að rétta þann hlut finnst manni það hart að atvinnugrein sem býr að svo gríðarlega miklum hagnaði og arði vegna aðgengis að þjóðarauðlindinni skuli ekki vera knúin til þess að taka samfélagslega á með okkur hinum, að það skuli ekki raunverulega vera fjármunir frá aflögufærum atvinnugreinum sem hjálpi okkur við að reisa við þjóðarsjúkrahúsið, bæta kjör þeirra sem verst standa í landinu. Það er hin átakanlega sýn og það er auðvitað í þessu sem kristallast munurinn á hægri stjórn og vinstri stjórn. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem var jafnaðarmannastjórn og stýrði hér á erfiðasta kjörtímabili lýðveldissögunnar, liggur mér við að segja, tókst þó að forgangsraða og verja velferðarkerfið á tímum þegar hefði verið mjög auðvelt að brjóta það niður með rökum og hugmyndafræði hægri manna.