145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, það er svo sannarlega rétt að það kristallast í þessu sá skilningur sem við held ég hreinlega leggjum í það hvað samfélag er og hvernig eigi að reka það. Á það að vera rekið á félagslegum nótum þar sem hver leggur til eins og hann getur og gerir það með stolti? Það ætti í mínum huga einmitt að vera þeim fyrirtækjum og þeim einstaklingum sem það geta að vera kappsmál að leggja sem mest þeir geta til samfélags síns svo hægt væri að reka þætti á borð við heilbrigðisþjónustu, menntakerfi og allt það, sem ég held að við séum í rauninni sammála um að séu þættir sem einkenna gott samfélag.

En það er einhvern veginn ekki hægt að skilja alveg við andsvar í umræðu um fjáraukalög án þess að koma inn á þá breytingartillögu sem minni hluti hv. fjárlaganefndar leggur til, sem gengur út á það að kjör bæði eldri borgara og öryrkja verði bætt aftur í tímann, líkt og aðrir hópar hafa fengið kjarabætur á þessu ári. Mig langar því til að spyrja hv. þingmann: Fyrirséð er að rétt tæplega 21 milljarðs kr. hagnaður verði af ríkissjóði. Ef ekki er núna tíminn til að gera vel í því að bæta kjör þeirra sem búa við mesta fátækt í íslensku samfélagi, ef sá tími er ekki núna, er hann þá einhvern tímann?