145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:08]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það segir náttúrlega sitt um metnaðarleysi þessarar verklitlu ríkisstjórnar hvernig að þessu er staðið. Það er aumlegt að áætla ekki fyrir uppbyggingu ferðamannastaða og að við skulum vera hér með vegakerfi sem liggur undir skemmdum. Það að fara í vegaframkvæmdir, viðhald vega og tengivega, eru framkvæmdir og verkefni sem nýtast um landið allt, nýtast öllum landshlutum en hafa gríðarlega mikla þýðingu. Það má kannski segja að vegakerfið sé auðlind og við verðum að hlúa að þeirri auðlind því að þetta er samgöngukerfi sem búið er að byggja upp og það er mjög mikils virði að það liggi ekki undir skemmdum, vegna þess það kostar mikið, það getur kostað mikið að spara.

Það er alveg greinilegt að of lítið er í lagt, m.a. vegna þess að áherslan liggur ekki á þessa þætti. Innviðauppbyggingin er afgangsstærð, eins og þingmaðurinn orðaði það svo ágætlega, og það er nöturlegt upp á að horfa þegar við vitum að það eru fjármunir, það er hægt að afla fjár. Það er ekki eins og við stöndum núna frammi fyrir einhverri kreppu sem réttlætir það að láta þetta mæta afgangi. Þvert á móti er landið að rísa, þökk sé aðgerðum ekki síst fyrri ríkisstjórnar. Sem betur fer eru ákveðnar framkvæmdir í gangi í vegakerfinu í dag en það er vegna ákvarðana síðustu ríkisstjórnar. Það er auðvitað lítill metnaður að standa svona að þessu, ekki síst vegna þess að við höfum efni á því að gefa í og ættum að gera það. Eðlileg hagfræðihugsun segir að í góðærinu eigi maður að safna í hlöðurnar svo maður hafi borð fyrir báru þegar harðnar í ári.