145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015 og ég ætla í ræðu minni að nota nefndarálit frá minni hluta hv. fjárlaganefndar mér til stuðnings og fara í gegnum ýmsa þætti sem mér finnst mikilvægt að tæpa á í þessari umræðu.

Kannski er ágætt að nefna í upphafi að frumjöfnuður ríkissjóðs styrkist um rúmlega 17 milljarða samkvæmt frumvarpinu og heildarjöfnuður ríkissjóðs verður þá 20,9 milljarðar. Mér finnst ágætt að hafa þá tölu í huga vegna þess að hún sýnir að afkoma ríkissjóðs er, sem betur fer vil ég að leyfa mér að segja, nokkuð góð og hefur sem betur fer verið upp á við og snúist allverulega við frá þeim stóra mínus sem varð hér í hruninu. Það er ekkert nema gott um það að segja að ríkissjóður sé kominn upp í góðan plús. Það skiptir hins vegar máli hvernig við ráðstöfum þeim fjármunum sem úr er að spila.

Í áliti minni hluta hv. fjárlaganefndar er bent á og gagnrýnt að þegar kemur að arðgreiðslum, til að mynda Landsbanka Íslands, hafi ekki verið gerðar nógu nákvæmar áætlanir og bent á að þetta hafi líka gerst í fyrra. Þá var í fjárlögum einungis gert ráð fyrir því að arðgreiðslur í ríkissjóð næmu 6 milljörðum kr. en þær reyndust síðan 21 milljarður.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 er einungis gert ráð fyrir 7,1 milljarði sem Landsbankinn muni greiða í arð til ríkissjóðs. Sé litið til fyrri tveggja ára má hins vegar gera ráð fyrir að þessar greiðslur verði allmiklu hærri. Þetta skiptir máli. Þótt ekki sé gott að ofáætla hlutina er heldur ekki gott að vanáætla þá. Við hljótum að vilja að hér sé vandað eins til verka og mögulegt er og gerðar nákvæmar áætlanir. Við leggjum línurnar meðal annars út frá þessum áætlunum um það hvernig við ætlum að reka samfélag okkar og miðum út frá þessu hvað við höfum mikla fjármuni til þess.

Herra forseti. Annað sem mig langar að koma hér inn á er að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og vegamálin hafa verið algjörlega vanáætluð í fjárlögum síðustu ára en komið hefur verið inn með smáfjármuni í þessa mikilvægu málaflokka. Ég trúi eiginlega ekki öðru en að allir séu sammála um að það verði alltaf að gera ráð fyrir peningum í þá en það er sem sagt í fjáraukalögum sem peningar eru settir inn í þá. Við vitum öll hvað varðar ferðamannastaðina að við þurfum að hafa fjármagn vegna þess að allir sjá hina gríðarlega miklu fjölgun ferðamanna sem hefur orðið. Það þarf að byggja upp innviði til að það sé mögulegt að taka við þeim. Ég held að allir sjái líka og viti að meiri fjármunir verða að koma inn í Vegagerðina og vegamálin vegna þess hreinlega að víða er þörf á viðhaldi og þetta er eitt af því sem hefur verið látið sitja á hakanum meðan ekki voru miklir fjármunir í ríkissjóði. Ég held að nú sé alveg komið að því að það þurfi að setja í þetta fjármagn, ekki bara á fjáraukalögum heldur verði að gera ráð fyrir því á fjárlögum.

Það að hér sé verið að setja inn fjármagn í fjáraukalögum en að þetta hafi ekki verið í fjárlögunum sjálfum tengist þeim vinnubrögðum sem bæði hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, rakti í framsöguræðu sinni og hv. þm. Oddný Harðardóttir kom einnig inn á í sinni ræðu þar sem hún var flutningsmaður nefndarálits minni hluta hv. fjárlaganefndar. Samkvæmt fjárreiðulögum er fjáraukalögum fyrst og fremst ætlað að taka til ófyrirséðra eða óhjákvæmilegra atvika og margir hafa bent á áhrif nýrra kjarasamninga sem við vitum öllum að eru einmitt það sem hefur núna þurft að bregðast við. Framkvæmdir við ferðamannastaði og vegamálin eru hins vegar ekki ófyrirséðir þættir heldur þvert á móti mjög fyrirséðir. Þeir þurfa að vera á fjárlögum og það þarf að setja peningar í þá þar.

Ein ástæðan fyrir því að ég ákvað í upphafi að hefja afskipti af stjórnmálum var vilji minn til að leggja mitt af mörkum til að skapa á Íslandi samfélag jöfnuðar þar sem allir, hvort sem þeir eru ríkir eða efnaminni, gætu lifað mannsæmandi og góðu lífi. Það tengir mig inn á næsta þátt sem mig langar að gera hér að umtalsefni, barnabætur. Markmiðið með þeim er að jafna stöðu barnafjölskyldna. Þar tel ég gríðarlega mikilvægt að líta til þess að jafna stöðuna þannig að tekjulágar barnafjölskyldur fái góðan stuðning frá ríkinu til að geta búið börnum sínum gott og betra líf.

Hér eru 600 millj. kr. sem á að fella á brott og minni hluti hv. fjárlaganefndar bendir á það í umsögn sinni og telur að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefði mátt birta sviðsmyndir sem sýna með hvaða hætti ætlunin hafi verið að dreifa þessu fjármagni í formi barnabóta milli þjóðfélagshópa. Síðan hefði mátt sýna hvernig þær dreifast í reynd og skýra í hverju frávikið birtist sem veldur þessari miklu niðurfellingu bótanna upp á 600 milljónir eins og ég sagði. Ég tek alveg heils hugar undir þetta með minni hluta hv. fjárlaganefndar því að eins og ég sagði er þarna alveg gríðarlega mikilvægt tæki til að jafna stöðu barna. Börn velja ekki inn í hvers konar fjölskyldu þau fæðast og hafa enga stjórn á því hvort foreldrar þeirra eru tekjuháir eða tekjulágir. Ég tel að það sé eitt af því sem við sem samfélag eigum að gera, að jafna kjörin til að öll börn geti notið lífsins. Samfélagið á að taka þátt í að draga úr þeim mismun sem börn búa við vegna fjárhags foreldra þeirra. Minni hlutinn telur að ekki hafi verið sýnt fram á að þau markmið hafi náðst þegar breytingar voru gerðar á úthlutunarreglum barnabóta sem veldur því að tekjutengingar hafa orðið brattari. Minni hlutinn telur enn fremur að ekki hafi verið sýnt fram á að það sé óumdeilt hvernig þær breytingar voru réttlættar.

Það þýðir ekki bara að tala um hvernig við ætlum að ráðstafa peningunum út úr ríkissjóði heldur snýst þetta líka um að ná fjármunum inn í ríkissjóð. Þar hafa veiðigjöldin mjög oft verið nefnd. Þau hafa verið lækkuð verulega frá því að núverandi hæstv. ríkisstjórn tók við stjórn landsins. Á sama tíma hefur það gerst að stórútgerðin stendur núna alveg gríðarlega vel og við höfum séð það hvað best í því hversu mikinn arð hún hefur getað greitt. Þar eru mörg fyrirtæki svo sannarlega í þeirri stöðu að þau eiga að geta lagt verulega til samfélagsins, t.d. í formi veiðigjalds sem í mínum huga er ekkert annað en eðlilegt og sanngjarnt. Ég vil nota þá aðferð til að stýra í mínu samfélagi að þeir sem hafa getuna leggi hvað mest til en að ríkið endurdreifi svo fjármagninu til þeirra sem mestu þörfina hafa. Hér held ég að búið sé að létta af þeim sem einna best geta greitt til ríkisins. Auðvitað eru fleiri fyrirtæki en bara í útgerðinni sem ég tel að ættu að greiða meira til samfélagsins en þau gera núna. Svo sannarlega getur útgerðin það og kannski er best að nefna hana í þessu dæmi vegna þess að veiðigjöldin hafa verið lækkuð á síðustu missirum.

Ég sé að það er að sneyðast um tímann hjá mér og vil að lokum gera að umtalsefni breytingartillögu minni hluta hv. fjárlaganefndar. Hún snýr að kjaramálum eldri borgara og öryrkja og í nefndarálitinu segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Með breytingartillögum minni hlutans er gerð sú sanngjarna tillaga að kjör eldri borgara og öryrkja verði bætt í samræmi við hækkun lægstu launa og greiðslur hækki frá 1. maí á þessu ári eins og laun á almennum markaði. Því er lagt til að veitt verði um 6,6 milljarða kr. framlag til að bæta kjör eldri borgara og öryrkja.“

Mér finnst frekar veikt að segjast sannarlega taka heils hugar undir þessa tillögu því að ég held að þetta sé alveg gríðarlega mikilvægt. Líkt og ég sagði áðan er núna tekjuafgangur og það verður enn þá tekjuafgangur þótt við förum í þessa afturvirku hækkun. Ef núna er ekki borð fyrir báru til að aldraðir og öryrkjar fái að njóta góðs af því að hagnaður er orðinn í ríkissjóði veit ég eiginlega ekki hvenær rétti tíminn væri til að fara í góðar kjarabætur til þessa hóps. Þegar hv. þm. Páll Valur Björnsson spurði hæstv. forsætisráðherra hvort nú væri ekki tíminn til að bæta kjör öryrkja skildi ég svarið svo að hæstv. forsætisráðherra teldi svo vera. Hann þakkaði hv. þingmanni sérstaklega fyrir að halda þinginu við efnið hvað þetta varðaði og sagðist vonast eftir samstarfi milli stjórnar og stjórnarandstöðu við vinnu hv. fjárlaganefndar og að í framhaldinu mætti taka á þessum vanda.

Herra forseti. Nú er framhaldið og nú reynir á hvort allur þingheimur vill virkilega bæta kjör öryrkja. Tillaga í þá veru er komin fram.

Hv. þm. Helgi Hjörvar benti svo réttilega á það úr þessum ræðustól fyrir nokkrum dögum að það erum við, Alþingi, sem erum kjararáð öryrkja. Við höfum þetta í hendi okkar. Fjármunirnir eru til og þess vegna er þetta bara spurning um hvort við viljum fara í það að bæta kjör eldri borgara og öryrkja. Viljum við gera það afturvirkt líkt og gert var með til dæmis laun á almennum markaði sem hækkuðu frá 1. maí og líkt og launin okkar sem hér inni störfum hækkuðu frá 1. mars?

Vilji þjóðarinnar í þessum efnum hefur verið kannaður og það kom fram í Gallup-könnun sem Öryrkjabandalagið lét gera fyrir sig að ríflega 90% svarenda töldu sig ekki geta lifað af þeirri framfærslu sem öryrkjum er skömmtuð þar sem sumir hafa ekki framfærslu upp á nema 172 þús. kr. á mánuði. Ég tek undir að ég tel mig ekki geta lifað á svo lágri framfærslu. Að sama skapi töldu 95% svarenda að lífeyrisþegar ættu að fá jafn háa eða hærri krónutöluhækkun en lægstu launþegar. Það liggur alveg fyrir í þessari könnun að 95% telja að það eigi að gera (Forseti hringir.) jafn vel, ef ekki betur, við öryrkja og þess vegna hvet ég þingmenn alla til að samþykkja breytingartillögu minni hluta hv. fjárlaganefndar.