145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:38]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þá hef ég skilið hv. þingmann alveg hárrétt og tek fyllilega undir með henni.

Mig langar aðeins til að nefna líka áætlunargerðina sjálfa eins og hún birtist í fjáraukalagafrumvarpinu. Hvernig kemur það þingmanninum fyrir sjónir til dæmis í ljósi gildandi laga um fjárreiður ríkisins? Eru þetta eðlileg vinnubrögð að mati þingmannsins við fjáraukalög sem við sjáum hérna, þ.e. að verið er að bregðast við hlutum sem ætla mætti að hafi verið fyrirsjáanlegir fyrir löngu og hefði mátt áætla fyrir í upphafi? Ég nefni sem dæmi uppbyggingu ferðamannastaða.

Mér þætti fróðlegt að heyra hvernig þetta kemur hv. þingmanni fyrir sjónir því að mér finnst þetta vera einkennileg vinnubrögð og ótraustvekjandi svo ekki sé meira sagt. Í gamla daga hefði kannski verið talað um rasshandarvinnubrögð í þessu samhengi.