145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Í fyrsta lagi varðandi lyfjamálin þá virðist einfaldlega vera um að ræða aðferðafræði sem Sjúkratryggingar hafa tileinkað sér, sem er það að kvótabinda mjög dýr lyf og veita aðeins heimild fyrir þeim í samræmi við upphaflegar áætlanir. Umframþörfinni sem auðvitað hlýtur að myndast með lyf alveg eins og með alla aðra meðferð vegna aðstæðna sem ekki verður ráðið við er þá ýtt fram á næsta fjárlagaár eða þar til fjárveitingar koma á nýjan leik með þeim harkalegu afleiðingum að fólk getur orðið fyrir stóralvarlegum afleiðingum eins og að missa sjón. Þetta finnst mér einfaldlega aðferðafræði sem hefur ekkert með áætlanir að gera, þetta er mannfjandsamlegt verklag sem er viðhaft af viðkomandi stofnun og eru engin efnisrök fyrir og ríkisstjórninni ætti að vera í lófa lagið að vanda þar um og bæta þar úr.

Hvað varðar síðan hinn þáttinn sem hv. þingmaður spyr um þá er vissulega vanáætlun hvað varðar arðgreiðslurnar, en ég er ekki viss um að t.d. í tilviki barnabótanna sé um vanáætlun að ræða. Ég held einfaldlega að ríkisstjórnin hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að láta barnabótakerfið tærast upp. Þegar barnabætur byrja að skerðast við 200 þús. kr. tekjur og skerðast að fullu hjá hjónum með eitt barn með 409 þús. kr. er ekki hægt að segja neitt annað en að ríkisstjórn sem á sama tíma nýtir fé til að lækka skatta á efri meðaltekjuhópa sé að taka meðvitaða ákvörðun um að breyta barnabótum í lágtekjubætur en ekki bætur sem nýtast venjulegu fólki.