145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er ég sökuð um að fólk sé að verða blint á Íslandi. Það er málefnalegt. Hér er ekki talað um þann frábæra lyfjasamning sem stjórnvöld voru að landa varðandi lifrarbólgu C. Hér fara stjórnvöld fram og útrýma lifrarbólgu C í landinu. Samningurinn er upp á um 10 milljarða, en stjórnvöld borga einungis 450 millj. kr. á þremur árum. Ekki tala um það, hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Það eru allt of jákvæðar fréttir. Þið skuluð bara halda ykkur í þessari neikvæðni.

En varðandi barnabæturnar og vaxtabæturnar; sem betur fer fara vaxtabætur líka lækkandi í útgjöldum ríkisins. Það sýnir að skuldaniðurfellingin virkaði. Fólk á meira í húsnæði sínu, skuldar minna og þess vegna lækka vaxtabæturnar. Svona er þetta einfaldur (Forseti hringir.) útreikningur. En hér er þetta notað sem pólitísk kylfa, að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) sé að skera allt niður. Þetta er á mjög dapurlegu plani, virðulegi forseti.