145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að svara þeirri spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín um sjávarútveginn um 0 kr. í ríkissjóð, nei, það er ekki rétt, það er alls ekki rétt. Sjávarútvegurinn borgar veiðigjöld, við getum diskúterað það nánar, og mér kom svolítið á óvart umræðan hér í dag og einhver síða er í fjárlagafrumvarpinu um það, en síðan les ég það hvort það sé út af kerfisbreytingunni, að menn fari að greiða þetta út frá rauntíma einum eða tveimur mánuðum eftir að þeir landa sem við hefðum öll viljað hafa og stuðla að, þá er það vonandi þannig. En ágreiningur okkar getur alltaf verið um hvað veiðigjaldið á að vera hátt og ég minni á það sem allir flokkar hafa samþykkt, að sjávarútvegurinn á að greiða hóflegt veiðigjald í ríkissjóð, spurningin er um hve hátt.

En hv. þingmaður sagði nefnilega áðan að hann ætlaði ekki að afsaka eina vitleysu með annarri vitleysu og það var þetta dæmi sem ég tók um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. 850 milljónir fóru í þann sjóð samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar í mars og er verið að gera hér í tillögum meiri hlutans, þetta er nú ein vitleysan sem gerð er, í staðinn fyrir að klára dæmið. Ég hef sagt héðan úr ræðustóli og sem mína tillögu og míns flokks: Hækkum gistináttagjaldið, 100 kr. gistináttagjald gefur 285 milljónir. Við þurfum því ekki að fara nema í 500–600 kr. og sjáum þá hvað talan hækkar. Og gerum annað: Látum sveitarfélögin fá líka sitt út úr þeim pakka vegna kostnaðar sem þau verða fyrir.

En í lokin gagnvart öldruðum og öryrkjum, mér heyrist hv. þingmaður í raun og veru taka undir það sjónarmið sem ég hef haldið fram og kemur fram í breytingartillögum um að hækka laun aldraðra og öryrkja afturvirkt eins og aðrir hafa fengið. Þess vegna spyr ég hv. þingmann eins og ég gerði áðan: Af hverju í ósköpunum er stjórnarmeirihlutinn í þessari herferð gegn öldruðum og öryrkjum? Hvað er að, að menn skuli ekki taka sig til og leiðrétta þetta (Forseti hringir.) eins og annað sem verið er að gera hér?

Virðulegi forseti. Ég talaði í byrjun (Forseti hringir.) um þá jákvæðu þætti í efnahagslífi Íslendinga sem við sjáum meðal annars í þessu frumvarpi.