145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svo ég taki fyrst síðari hluta andsvars hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, þá er þetta viðbótarframlag sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, það er hið sama og við ræddum um í vor og snýst um uppsafnaðan vanda nokkurra tónlistarskóla í Reykjavík. Þá vorum við hv. þingmaður, held ég að mínu minni, báðar í þeirri umræðu og hæstv. ráðherra kom og tilkynnti okkur að frumvarp væri í smíðum. Það er á þingmálaskrá hæstv. ráðherra, en við höfum ekki enn þá séð það frumvarp.

Ótti minn er sá í ljósi þess að málið er flókið og varðar flókin samskipti, því miður samskipti sem hafa verið of flókin virðist vera í reynd á milli ríkis og sveitarfélaga, þá óttast ég að því máli verði ekki lokið, kannski fyrst og fremst út frá sögunni af því að það frumvarp hefur verið lengi í smíðum. Það hefur verið á þingmálaskrá í alllangan tíma og þá er auðvitað algerlega óviðunandi ef við erum aftur að horfa á þetta mál á næsta ári í sömu óvissu, það gengur bara ekki upp og það gengur heldur ekki upp gagnvart tónlistarskólunum að slík óvissa haldi áfram, en ég hef engar frekari fregnir af því. Þetta er minn ótti en ég vona að sjálfsögðu að frumvarpið komi fram og það verði gott og að hægt verði að ná sátt um það þannig að við getum lokið því í vor.

Hvað hitt varðar, um hinar stefnumótandi ákvarðanir í gegnum fjárlög og hv. þingmaður nefndi líka heilbrigðismálin, þá held ég að það sé rétt að að einhverju leyti er um að ræða þá lagasetningu sem hefur verið iðkuð þar sem ráðherrar hafa mjög ríkar heimildir. Við erum með dæmi um það til dæmis núna í lagasetningu um opinber fjármál, þar sem verið er að tala um útvistun sem átti að vera allt að 25% af framlögum ríkisstofnana án samþykkis ráðherra á hverjum tíma en lagt hefur verið til að minnka það niður í 15%. Það er eigi að síður verulegur hluti ef við tökum til dæmis stórar stofnanir, Landspítalann, Háskóla Íslands, þar sem pólitískar ákvarðanir eru í raun og veru komnar úr höndum Alþingis vegna lagasetningar.