145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:28]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög umhugsunarvert vegna þess að í þessum málum þarf að gæta hins gullna jafnvægis eins og í öllu öðru.

Ég er þeirrar skoðunar að þingið eigi ekki að fjalla mikið um einhvern tittlingaskít, ef ég má orða það svo. En það má á milli vera að tala um að veita þessum samtökunum eða hinum samtökunum 3 milljónir eða 2 milljónir, eða að vísa í ráðuneytin stefnumótandi ákvörðunum og þessu þurfum við virkilega að vara okkur á.

Nú langar mig að spyrja, þetta er kannski svolítið kjánaleg spurning vegna þess að við horfum upp á það í þessum fjáraukalögum að nú var þingið búið að ákveða að borga ætti hundruðum milljónum meira, ég held að það séu um 200 milljónir í barnabætur og eitthvað annað eins eða meira í vaxtabætur, sem má segja að ríkið sé núna að taka til sín vegna þess að einhverjar reikniformúlur gera það að verkum að við þurfum ekki að greiða þær bætur til þess fólks sem þingið var samt sem áður búið að ákveða að ætti að fá þær. Mig langar til að spyrja þingmanninn: Hvað finnst henni um ráðstafanir af þessu tagi?

Og svo má líka kannski spyrja um þær 60 milljónir sem eiga að fara til tónlistarskólanna. Ef ég man rétt var hæstv. menntamálaráðherra svo sem ekki mjög ákafur og vildi lítið gefa upp um það hvort hann ætlaði að standa við það sem var kallað samkomulag og hann sagði að væri ekki samkomulag. En er það ekki alveg ljóst að ef þær 60 milljónir verða samþykktar í þinginu þá getur ráðherrann ekki látið hjá líða að þær verði greiddar til tónlistarskólanna? Er það?