145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur og að sumu leyti er ég sammála því að það er mikilvægt að ráðherrar hafi ákveðið svigrúm innan síns ráðuneytis til að geta innleitt pólitíska stefnumörkun og annað slíkt sem samt þarf að fara til umræðu í þinginu. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því sem fyrirhugað er í frumvarpi til laga um opinber fjármál. Ég hef um leið skilning á því að það er mikilvægt að þetta svigrúm sé til staðar en ég hef áhyggjur af því að tilhneigingin verði sú að hin pólitíska umræða eigi sér ekki stað á vettvangi þingsins.

Ég veit að gert er ráð fyrir ákveðnum breytingum þannig að þingið hafi samt aðkomu að málum, en ég hef mjög miklar áhyggjur, miðað við aðbúnað þingsins, miðað við einstök ráðuneyti, þar sem þingið er nú ekki ofhaldið í fjárveitingum miðað við einstök ráðuneyti, að þar muni þingið eiga á brattann að sækja í því að geta veitt það sem við getum kallað eðlilegt aðhald, annars vegar varðandi það hvernig fjármunum er varið og hins vegar að geta átt pólitíska umræðu, því að það er pólitík í því hvernig fjármunum er varið. 2% af ramma — við getum tekið ráðuneyti til dæmis menningarmála, 10 milljarða fjárveiting og flest af því allbundið og 2% af því, hvað er það? Það eru 200 milljónir, ekki satt?

Þetta eru kannski ekki gríðarstórar fjárhæðir sem um er að ræða þannig að ég held að reynslan eigi eftir að sýna okkur hvernig þessi regla mun virka. Ég tel að það geti verið mjög eðlileg sjónarmið að baki því að ráðherrar hafi þetta svigrúm eins og gert er ráð fyrir, en það sem er okkar að tryggja og ég legg mesta áherslu á er að þingið hafi aðgang að sérfræðingum á ólíkum sviðum til þess að styrkja sig í því að sinna þessu nauðsynlega aðhaldshlutverki. Mér finnst við komin allt of langt út á þá braut að þingið (Forseti hringir.) komi að ákvörðununum eftir að þær hafa verið teknar, nánast þegar búið er að taka allar ákvarðanir og kynna þær, og hefur ekki raunverulega tækifæri til að taka þátt í sjálfri stefnumótuninni.