145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:37]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir málflutning hv. þingmanns. Það verður mikil áskorun að innleiða þessi lög og gera það almennilega og ég held að mjög mikilvægt sé að fagnefndirnar, sem ég kalla svo, hér á þingi komi miklu meira að fjárlagaumræðunni en er í dag.

Mig langar aðeins að spyrja út í liðinn um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem kemur aftur og aftur inn á fjáraukalög, þó hugsanlega ekki á næsta ári vegna þess að búið er að setja umtalsverða fjárhæð á fjárlög 2016. En það lá alveg fyrir að þetta kæmi inn í ár vegna þess að það voru aðeins settar eitthvað um 150 milljónir á fjárlög og mótmæltum við því öll, sem sáum þetta auðvitað fyrir. Síðan er komið í vor inn á fund fjárlaganefndar og tilkynntar miklar hækkanir í sjóðinn og í vegaframkvæmdir og í nefndaráliti meiri hlutans er það orðað þannig, ég man ekki nákvæmlega hvernig það er orðað, að það sé virðingarvert eða gott verklag að ráðherrann komi á fundinn og kynni þetta. Í mínum huga skiptir það engu máli vegna þess að þetta á jafn illa heima á fjáraukalögum eftir sem áður, hvort sem ráðherra kemur eða ekki, en kannski er það kurteisi. Hvað finnst hv. þingmanni um þetta? Þótt ráðherrar kæmu til fjárlaganefndar með alla þá liði sem væru eitthvað á reiki gæti það með engum hætti réttlætt ákvörðunina. En það er tekið þannig til orða í nefndaráliti meiri hlutans og það vakti athygli mína, eins og þetta sé með einhverjum hætti réttlætanlegt. Það verður spennandi að sjá hvort meiri hlutinn greiðir atkvæði með þessum lið, Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, vegna þess að hann á svo innilega ekki heima þarna. En við erum auðvitað í þeirri stöðu að það er búið að eyða peningunum. Okkur er því stillt upp við vegg. Það er alltaf þannig með fjáraukalögin.