145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:02]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðuna. Mig langar að byrja á að spyrja hv. þingmann um það sem hann endaði sína ræðu á, en þar velti hann því fyrir sér hvernig fjármagna mætti það ef við vildum hafa áfram jafn mikinn hagnaði á ríkissjóði og nú er en bæta einnig bæta kjör aldraðra og öryrkja aftur í tímann, og nefndi hann í því sambandi veiðigjöldin. Nú hafa veiðigjöldin verið lögð m.a. á stórútgerðina sem hefur á undanförnum missirum, eftir að veiðigjöldin hafa verið að lækka, greitt sér gríðarlega háar upphæðir í arð.

Nú brá svo við í umræðunni í dag að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður hv. fjárlaganefndar, sagði að ríkissjóður væri að fá skatta af arðinum sem útgerðarfyrirtækin greiddu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér í því að hér afhjúpist í raun sýn hv. meiri hluta Alþingis og brauðmolakenningin sé hreinlega að ná nýjum hæðum þar sem ríkissjóður má þakka fyrir þær tekjur sem hrökkva af arðinum sem stórfyrirtækin greiða, en því miður duga brauðmolarnir ekki til að bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa.