145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, ég verð að játa að ég hef undrað mig á hvað mér hefur sýnst Framsóknarflokkurinn vera kominn langt til hægri, a.m.k. sumir hv. þingmenn þess flokks. Aðrir þingmenn hans hafa kannski reynt, alla vega þegar svo ber undir, að halda samvinnuhugsjóninni á lofti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það sé gríðarlega brýnt að kjör eldri borgara og öryrkja verði bætt og það aftur í tímann, sér í lagi núna þegar við höfum borð fyrir báru. Hvenær ættum við að gera það ef ekki núna þegar það er svigrúm í ríkisfjármálunum?

Hv. þingmaður benti réttilega á það héðan úr þessum ræðustól fyrir nokkrum árum að það erum við sem hér stöndum, við þingmenn, sem erum kjararáð öryrkja. Sú umræða hefur greinilega verið tekin eitthvað aðeins lengra áfram því að ég heyrði það að hv. þm. Páll Jóhann Pálsson virtist í umræðu áðan alveg til í að ljá máls á því hvort bætur almannatrygginga ættu jafnvel að ákvarðast af kjararáði. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða kosti hann sæi við það og hvaða hættur kynnu að vera fólgnar í því að færa það að ákvarða kjör öryrkja frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum á Alþingi og til kjararáðs.