145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:20]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Þetta eru fyrstu fjáraukalögin og fyrstu fjárlögin sem ég tek þátt í. Það fyrsta sem vekur athygli þegar ég les yfir nefndarálitin, sérstaklega frá minni hlutanum, er að þau benda á að það eru ýmsar tillögur í frumvarpi til fjáraukalaga sem eiga kannski ekki heima í fjáraukalögum. Þarna sé um að ræða fyrirséð útgjöld og samkvæmt lögum frá 1997 um fjárreiður ríkisins eiga allar fyrirsjáanlegar fjárráðstafanir að koma fram í fjárlögunum. Í aukafjárlögum innan fjárhagsársins verði að leita eftir heimildum fyrir þeim fjárráðstöfunum sem ekki var hægt að sjá fyrir við afgreiðslu fjárlaga.

Það eru nokkur atriði sem minni hlutinn bendir á, t.d. framkvæmdir við ferðamannastaði og sérstakan saksóknara, sem eru útgjaldaliðir sem var sérstaklega vitað um. Það væri kannski eðlilegra að sjá það í fjárlögum en fjáraukalögum.

Svo ég haldi áfram með þá góðu umræðu sem var hér áðan um ferðamenn, einkum í tengslum við framkvæmdir á ferðamannastöðum, þá hefur það tekið allt of langan tíma að koma einhverri reiðu á það. Það er ekki eins og það sé eitthvað nýtt þannig lagað séð að við séum með ferðamenn, það hefur verið vaxandi straumur ferðamanna frá 2006/2007. Við erum bara langt á eftir þegar kemur að því að búa til umgjörð um þetta. Það er eins og við þurfum alltaf að finna upp hjólið að nýju, eins og til dæmis náttúrupassinn sýndi fram á. Við vorum að reyna að finna upp hjólið að nýju í stað þess að nota góðar og gildar aðferðir sem hafa verið reyndar um Evrópu og annars staðar í heiminum. Eitt af þeim er gistináttagjaldið. Það hefur verið gagnrýnt fyrir að vera allt of lágt. Ég er eiginlega sammála því. 100 kr. eru ekki nema um 0,70 evrur eða 50 bresk pens. Það er alveg einstaklega athyglisvert að sjá að það sé ekki prósentutenging við gistináttagjaldið í stað þess að hafa þetta 100 kr. 100 kr. íslenskar er mjög lágt.

Síðan er annað sem hægt er að hafa í huga, að til að búa til nýjan tekjustofn sem mundi renna til sveitarfélaganna væri hægt að skipta gistináttaskattinum í tvennt, annars vegar svokallaðan „city tax“, með leyfi forseta, eða borgarskatt sem yrði greiddur einu sinni við komu inn á hótel og hins vegar gistináttagjald, sem mundi þá renna í ríkissjóð. Þannig væri hægt að koma til móts við þau aukaútgjöld sem bæir og borgir þurfa að standa að til dæmis með aukinni sorphirðu og fleiru í þeim dúr, sem virðist vera vandamálið. Á móti kemur að gistináttagjaldið gæti verið meira í þá áttina að fara í rekstur ferðamannastaða og búa til göngustíga og fleira því um líkt.

Svo ég gleðjist aðeins í þessum fjáraukalögum þá gleður mig mjög að sjá 60 milljónir vegna uppsafnaðs rekstrarvanda nokkurra tónlistarskóla í Reykjavík, að farið sé í að reyna að styrkja eða koma stoðum undir það góða tónlistarnám sem Ísland hefur búið til í gegnum áratugina. Íslensk tónlist er leikin um víðan völl og er úti um allt í heiminum nú til dags. Það er mikið til komið vegna þess að tónlistarnám þykir vera tiltölulega aðgengilegt á Íslandi miðað við annars staðar í heiminum. 60 milljónir til að koma til móts við uppsafnaðan rekstrarvanda eru hins vegar ekki alveg nóg. Við þurfum að gera betur. Það þarf einhvern veginn að leysa úr þeim ágreiningi milli sveitarfélaga og ríkisins um hver eigi að sinna hverju. Þetta snýst um að reyna að vinna saman, finna lausn varðandi þetta. Þessi fjárhagsvandi er ekki boðlegur þar sem þetta er ábyggilega ein af okkar helstu útflutningsgreinum og besta markaðssetning sem Ísland getur nokkurn tíma fengið, það er íslenska tónlistin. Við þurfum að gefa komandi kynslóðum sömu tækifæri og þeim sem voru hér á undan, svo ég nefni nú bara Björk og þau sem eru í Of Monsters and Men. Þetta eru ábyggilega bestu auglýsingarnar okkar. Þetta er allt saman fólk sem hlaut tónlistarmenntun að miklu leyti í tónlistarskólum. Tónlistarmenntun er mikilvæg til að byggja undir framtíðina á Íslandi og mjög góð leið til að kenna ungviðinu okkar að hugsa aðeins öðruvísi og læra aðeins öðruvísi.

Að öðru. Mig langar að ræða fangelsin í fjáraukalögunum. Það gleður mig mjög að sjá að í fjáraukalagafrumvarpinu eru um 24 millj. kr. til Fangelsismálastofnunar. Það mundi þá renna beint til þess að koma til móts við daglegan rekstur sjálfrar stofnunarinnar. Það gleður mig einnig að sjá í breytingartillögu meiri hlutans að 20 milljónir fara til Fangelsismálastofnunar og sérstaklega til byggingar innviða fangelsa, t.d. til fjölskylduherbergis þannig að fangar geti tekið á móti börnum sínum á Litla-Hrauni og mögulega annars staðar. Því hefur verið mjög ábótavant og fangelsin okkar hafa verið mjög fjársvelt undanfarið. Þess vegna leggjum við í Pírötum fram breytingartillögu sem beinist sérstaklega að því að taka til baka þá ströngu aðhaldskröfu sem hefur verið gerð, sérstaklega til Litla-Hrauns. Núverandi ástand þar er algerlega óviðunandi. Það er ekki hægt að kaupa nein tæki eða tól til að tryggja öryggi starfsmanna og fanga. Þarna er úreltur tækjabúnaður. Þarna er lífi starfsfólks stofnað í hættu fyrir utan það að ekki er fjármagn til að skipuleggja bakvaktir og ekki hægt að reka fangelsið sem það fangelsi sem við mundum vilja hafa. Ráðherra hefur þegar nefnt í þingsal að það þurfi að setja um 80 milljónir í fangelsin til þess að við getum rekið þau almennilega. Þess vegna leggjum við til að bæta við 27 milljónum í Litla-Hraun og eyrnamerkja sérstaklega Litla-Hrauni þar sem það er það fangelsi sem er í hvað mestri fjárþörf. Þetta er spurning um hugarfarsbreytingu, spurning um að við hættum að líta á fangelsi sem refsunarvist og frekar sem betrunarvist. Það þarf að koma skýrt fram. Við gerum það með því að eyða meiri peningi í fangelsin. Þetta er ein af þeim stofnunum sem eru hvað viðkvæmastar í samfélaginu. Það má ekki mikið út af bera til að eitthvað hræðilegt komi fyrir. Það er skylda okkar, að ég tel, sem þingmanna að koma til móts við þetta. Litla-Hraun hefur verið gífurlega fjársvelt. Það þarf einfaldlega þetta fjármagn til að koma til móts við þær ströngu aðhaldskröfur sem gerðar hafa verið á undanförnum árum. Miðað við núverandi ástand er það bara spurning um tíma hvenær eitthvað hræðilegt gerist. Þetta er spurning um að sýna orð í verki og taka á þessum málaflokki með reisn.

Annað sem hefur verið í umræðunni undanfarið er kjaramál eldri borgara og öryrkja. Mig langar að fagna breytingartillögu frá minni hlutanum sem hljóðar upp á að greiðslur til öryrkja og eldri borgara hækki afturvirkt frá 1. maí á þessu ári, eins og laun á almennum markaði. Þau leggja til að 6,6 milljarða kr. framlag verði lagt til til að bæta kjör eldri borgara og öryrkja. Aftur er þetta spurning um hugarfarsbreytingu. Þetta er spurning um að hætta að líta á þetta sem bætur. Bætur eru eitthvað sem maður fær kannski einu sinni, það þarf að líta á þetta sem laun. Þetta eru borgararnir okkar, fólkið sem kýs okkur. Það á alveg jafn mikinn rétt til lífs og mannsæmandi launa og við hin. Þetta er fyrsta skrefið í átt að því að komast úr þessari vistarbandahugsun og að vera á sveit og annað í þeim dúr. Við þurfum að komast út úr því, öryrkjar og eldri borgarar eru fullgildir þegnar í íslensku samfélagi. Ég styð þessa breytingartillögu heils hugar. Þetta er eitthvað sem við eigum að gera og vera stolt af að gera. Það á að vera í forgangi að leiðrétta kjör þessa fólks í landinu, einfaldlega af því að þetta er vanalega sá hópur sem er hvað bágstaddastur, eins og talað hefur verið um hér í pontu. 172 þús. kr. á mánuði er ekki mikill peningur til að spila úr. Það er ekki hægt að lifa sérstaklega góðu lífi af því. Það mundi koma öryrkjum og eldri borgurum einstaklega vel að fá þennan pening núna rétt fyrir jólin. Það hafa verið hækkanir í samfélaginu. Það verður að sætta sig við það. Þau eiga líka rétt á að fá þessar tekjur og hækkanir sömuleiðis þar sem kjörin eru nógu slæm nú þegar. Þetta skref er réttlætismál. Þetta er skref í átt að jafnara samfélagi. Þar sem þessi hópur hefur verið skilinn út undan erum við að byggja undir að ákveðnir hópar muni dragast aftur úr. Þetta er sérstaklega viðkvæmt mál um jólin. Ég ætla því að ljúka máli mínu með því að fagna þessari tillögu og ég vona að hún hljóti brautargengi.