145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir gagnrýni hennar þar sem hún bendir á að það séu mörg verkefni í fjáraukalögum sem ekki eigi að vera þar. Það eru verkefni sem hverjum manni var ljóst að þyrfti að vinna þegar fjárlög fyrir árið 2015 voru samþykkt. Þau voru ekki ófyrirséð. Það er bara til marks um lélega áætlanagerð ríkisstjórnarinnar.

Hv. þingmaður talaði um skattlagningu og hvernig innheimta mætti neysluskatta af erlendum ferðamönnum. Hún nefndi borgarskatt, sem við þekkjum og greiðum ef við ferðumst til útlanda. Ég hef að minnsta kosti lent í því þegar ég er búin að borga fyrir hótel í gegnum netið að ég er rukkuð um borgarskatt og gistináttagjald þegar ég mæti á staðinn. Hv. þingmaður nefndi ekki virðisaukaskattinn, en ég vil spyrja hana hvort hún telji ekki upplagt að nýta virðisaukaskattskerfið áður en farið verður að kokka upp einhver ný gjöld og flóknar innheimtuleiðir. Núna er virðisaukaskattur á ferðaþjónustu í neðra þrepinu eins og matur og nauðsynjar sem almenningur greiðir. Ég spyr hv. þingmann hvort það væri ekki eðlilegt fyrir atvinnugrein sem er ein sú stærsta á landinu að hún búi þá við sama rekstrarumhverfi og aðrir atvinnuvegir.