145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessu tengt hafa sveitarfélög sem komið hafa fyrir fjárlaganefnd nú í haust nánast öll talað um tekjustofna sveitarfélaga, að fasteignaskatturinn, útsvarið og jöfnunarsjóðurinn, þessir lögbundnu tekjustofnar, dugi ekki fyrir rekstrinum. Þau kalla eftir því að fá hluta af virðisaukaskattinum vegna þess að þau beri kostnað af ferðamönnum sem þau fái ekki til baka. Ég hef talað fyrir því að sveitarfélög fái hluta af veiðigjaldinu. Hugsanlega gætum við látið orkuskattinn, sem á að renna út nú um áramótin, halda áfram og látið hluta af honum renna til sveitarfélaganna.

Er hv. þingmaður sammála þeim leiðum? Hefur hún myndað sér skoðun um hvernig best væri að mæta kalli sveitarfélaganna um fleiri tekjustofna?