145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:39]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni innilega fyrir fyrirspurnina enda er þetta mikið réttlætismál fyrir mína kynslóð og eldri og jafnvel yngri. Það er náttúrlega skammarlegt í raun og veru að farið sé í vasa barnafjölskyldna til þess að reyna að koma ríkissjóði á réttan kjöl. Sömuleiðis með vaxtabæturnar. Þær gagnast þeim sem hafa það kannski ekki hvað verst en þetta skiptir húsnæðiseigendur miklu máli, sérstaklega ef við erum að reyna að fá fólk til að vera hér í landinu. Mér finnst þetta skammarlegt og þess vegna tek ég undir það sem minni hlutinn segir, að ekki hafi verið sýnt fram á að markmiðið hafi náðst þannig að þessi færsla sé réttlætanleg.

Ég tek sérstaklega undir orð hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur þegar hún sagði að þarna væri í raun og veru um stefnubreytingu að ræða. Þetta er pólitískt og ætti að vera rætt í þaula fremur en að lauma þessu inn í fjáraukalög. Mér þykir þetta í raun til skammar og skil ekki röksemdafærsluna vegna þess að allt verðlag virðist vera að hækka, húsnæðisverð er til dæmis að fara upp úr öllu valdi. Jafnvel þótt ég sé ungur þingmaður á þingfararkaupi þá sé ég ekkert fram á hafa efni á að kaupa eign, hvað þá eignast börn hér á landi næstu tíu árin.