145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langar að beina að henni annarri spurningu varðandi innviðauppbyggingu í landinu. Það kemur fram í þessum fjárauka að ákveðið hafi verið að setja 1,3 milljarða til samgöngubóta og ekki er farið eftir þeim hefðbundnu ákvarðanaferlum sem farið er eftir venjulega með slík framlög. Ég vil spyrja hvort hv. þingmanni þyki vel að málum staðið þegar slett er í einhverjar framkvæmdir ómarkvisst miðað við þá miklu þörf sem er í landinu fyrir að byggja upp samgöngur ef við eigum að geta tekið á móti öllum þeim ferðamönnum sem koma til landsins og sinna íbúum landsins. Víða hefur dregist von úr viti að byggja upp samgöngur. Þær eru okkur til skammar. Ég vil spyrja hvort hv. þingmaður telji ekki hafa verið þörf á því í fyrsta lagi að það lægi fyrir samgönguáætlun og menn ynnu eftir henni og legðu meira fé í þennan málaflokk.