145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Varðandi breytingartillögu Pírata ætlast ég svo sem ekki til að hv. þingmaður geti svarað fyrir hana, hún er frá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, en mig langar að forvitnast. Við erum alveg sammála um að Fangelsismálastofnun ríkisins sé vanfjármögnuð. Ég held að það sé alveg ljóst. Ég held að stjórnvöld viti það líka vegna þess að það hefur verið sett inn meira fjármagn í breytingartillögum, bæði við fjáraukalög og við fjárlög 2016. Það vantar pening í þennan málaflokk, sérstaklega í rekstur Litla-Hrauns en eins í rekstur Hólmsheiðar, því að maður sér ekki á fjárlögum 2016 að gert sé ráð fyrir rekstrinum, kannski eru menn að vona að fangelsið opni ekki fyrr en einhvern tímann seint og um síðir á árinu.

Hér er gerð tillaga um fjárframlag til fangelsisins á Litla-Hrauni til mótvægis við aðhaldskröfu ríkissjóðs sem gengið hefur mjög nærri rekstri stofnunarinnar. Þá spyr ég: Er ekki vænlegra til árangurs að reyna að gera breytingartillögu við fjárlögin þannig að þetta komi inn frá og með áramótum? Þetta er í raun og veru rekstur sem við erum að tala um og við höfum gagnrýnt að menn séu í fjáraukalögunum, og það er ekkert nýtt, það hefur verið þannig í gegnum tíðina, nema kannski á síðasta kjörtímabili svo að ég sé sanngjörn, að toga inn fjármuni í rekstur. Ég skil hvaðan þetta kemur en finnst að það ætti frekar að fara inn í breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið.