145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:47]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið þótt ég sé kannski ekki sannfærð. Það eru aðhaldskröfur á mjög margar stofnanir og í sumum tilfellum eru stofnanir vanfjármagnaðar, við sjáum það bara, þær berjast í bökkum. En við erum sammála um að þarna þarf meira fé, svo að því sé haldið til haga.

Það er eitt sem ég gleymdi að tala um í ræðu minni í dag sem kemur inn í breytingartillöguna og það er þjóðkirkjan. Ríkisstjórnin ákvað að samningurinn sem gerður var við þjóðkirkjuna taki aftur gildi og aðhaldskröfurnar hætta, en samt sem áður verður farið í vinnu við að reyna að finna út úr því hvernig þessu verði hagað til framtíðar. Þetta er umdeildur liður. Mér hefði fundist eðlilegt að þetta hefði komið inn á árinu 2016. Þá hefðu menn byrjað með hreint borð þar í staðinn fyrir að þetta komi inn á fjáraukalög. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhverja skoðun á því og vil ítreka að það er þetta samkomulag, ég held að ríkinu sé ekki stætt á að rifta því einn, tveir og þrír, hvað sem okkur finnst um framlög til þjóðkirkjunnar. En þá hefði ég, því að þetta eru 370 milljónir, frekar viljað fá þetta inn á fjárlög 2016.