145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[19:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi andsvars míns við hv. þm. Óttar Proppé taka undir lokaorð ræðu hans. Ég er innilega sammála því að ekki eigi að þurfa að grátbiðja hv. meiri hluta Alþingis að samþykkja þá breytingartillögu sem minni hluti fjárlaganefndar leggur til, um að hækkun til eldri borgara og öryrkja verði í samræmi við hækkun lægstu launa og að greiðslurnar verði aftur í tímann, eða frá og með 1. maí. Þetta er sanngirnismál.

Því miður hef ég ekki séð neina rífandi stemningu hjá þeim hv. þingmönnum meiri hlutans sem hafa tekið hér til máls í dag, aðallega kannski í andsvörum; ég sé ekki að það sé mikil stemning fyrir þessu.

Líkt og fram kom í máli hv. þingmanns þá er það tilgangur fjáraukalaga að leiðrétta eitthvað sem gerst hefur á árinu og eitthvað sem hefur breyst og var ekki fyrirséð. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sammála mér í því að það sé furðulegt að leggja til aukin útgjöld til ýmissa mjög svo fyrirséðra liða sem ekki fengu pláss á fjárlögum, eins og hvað varðar ferðamannastaði og framkvæmdir við þá og vegagerðina, en taka svo dræmt í það þegar kemur að einhverju ófyrirséðu, líkt og kjarabótum, og virðast ekki vilja ljá máls á því í fjáraukalögum. Er þetta ekki mjög furðuleg ráðstöfun með fjáraukalög?