145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[19:12]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni: Jú, í mínum augum skýtur það skökku við og er dálítið furðuleg forgangsröðun að sjá, eins og ég sagði í ræðu minni, kannski misjafnlega ófyrirséða liði hjá Vegagerðinni og eiginlega alls ekki óvæntan lið í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, miðað við umræðuna um fjárlög fyrir tæpu ári, en sjá ekki á sama tíma þá breytingu sem orðið hefur í kjaramálum á landinu á árinu.

Það er ekki eins og ríkið hafi ekki átt stóran þátt í kjaraþróun á árinu. Stór hluti af þeim hækkunum sem orðið hafa á árinu á kjarasviðinu eru einmitt í samningum sem ríkið á aðild að. Á öðrum stöðum í fjáraukanum er verið að taka tillit til þessara kjarahækkana í auknum kostnaði stofnana.

Það er í raun mjög sorgleg yfirsjón að þeir aðilar sem eru háðir bótum frá ríkissjóði, og þá erum við fyrst og fremst að tala um öryrkja og ellilífeyrisþega, teljist ekki með. Ég minntist aðeins á það í ræðunni að kjararáð, sem hefur það verkefni að láta okkur hv. alþingismenn fylgja launaþróun, mat það svo að hækka þyrfti töluvert við okkur launin og það afturvirkt.

Við búum við þann lúxus, alþingismenn, að ef til okkar koma peningar þá getum við í það minnsta látið þá renna til góðs málefnis. En það er erfitt að gera það þegar maður er hinum megin við borðið og sér enga hækkun heldur bara raunlækkun.