145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[19:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að enginn af öllum þingmönnum sem tekið hafa til máls úr minni hluta hér á Alþingi hafi farið í gegnum ræðu sína í dag án þess að ræða sérstaklega það óréttlæti að hækkun bóta lífeyrisþega verði ekki afturvirk. Þetta er því greinilega eitthvað sem við leggjum öll mjög mikla áherslu á.

Hv. þingmaður kom einnig inn á það í ræðu sinni að það sem hann lesi út úr fjáraukalögunum og jafnvel fjárlögunum sé að frekar sé verið að hlífa breiðu bökunum en þeim mjóu og svo hið augljósa, að tekjuhliðin hafi áhrif á það sem menn geta síðan leyft sér að fara með út. Þrátt fyrir að, líkt og hv. þingmaður rakti í ræðu sinni, ríkisstjórnin hafi verið að afsala sér tekjum þá er enn þá afgangur, meiri afgangur en það sem þarf til þess að hækka bæturnar afturvirkt til lífeyrisþega.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Getum við ekki lesið mjög hreina og klára pólitík og pólitíska forgangsröðun ríkisstjórnarinnar út úr þessum fjáraukalögum og þeim viðbrögðum sem við höfum fengið hér í dag á tillögu minni hlutans? Er þetta ekki hreinlega pólitík sem gengur út á að forgangsraða í þágu þeirra sem hafa það nú þegar gott í samfélaginu en ekki til að gera betur við þá sem hafa það slæmt?