145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[19:24]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er bara þannig að það er minni hlutinn sem leggur fram tillöguna, en meiri hlutinn hefur ekki fengið sig til þess. En ég ætla að leyfa mér að gerast spámaður hér. Ég finn það að þetta mál er erfitt pólitískt fyrir meiri hlutann og að almennir þingmenn í þingflokkunum sem styðja ríkisstjórnina eru ekki glaðir að þurfa að verja það að halda eigi kjörum öryrkja og aldraðra undir lágmarkinu. Þess vegna held ég að þó að tillaga minni hlutans verði felld í 2. umr. muni koma ný tillaga milli umræðna, aðeins öðruvísi útreiknuð, og að við munum öll samþykkja hana. Ég spái því. Svo skulum við sjá til hvað gerist.

Hv. þingmaður talaði mikið um áætlanagerð áðan og mér féll vel það sem hann sagði. Það er ágæt mynd í fjáraukalögum sem sýnir hvernig staðan hefur verið. Hún sýnir það að alveg fram að hruni var mikill munur á fjárlögum og svo fjáraukalögum. Það komu alltaf fram alls konar breytingar. Við hrunið náðum við þarna árangri, sennilega af því að við vorum neydd til þess. Við erum ekki mjög öguð þegar kemur að ríkisfjármálum og næsta mál á dagskrá í kvöld á eftir þessu máli er einmitt lög um opinber fjármál þar sem tekið er mjög rækilega á þessu, stefnumótun og áætlanagerð, þar á að ríkja festa og allt þetta.

Mig langar að spyrja, af því að hv. þingmaður talaði mikið um áætlanagerð og mikilvægi hennar, hvort hann telji að við Íslendingar séum nógu öguð og vel upp alin til þess að geta fylgt strangri áætlanagerð í ríkisfjármálum.