145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[19:26]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek glaður þátt í draumsýn hv. þingmanns um það hvernig fari. Mér finnst aðalatriðið, og mér er eiginlega sama hvernig það gerist, þetta réttlætismál sem er hækkun afturvirkt til öryrkja og ellilífeyrisþega, að það náist í gegn.

Í sambandi við áætlanagerðina er ég sammála hv. þingmanni með það að okkur hefur gengið ágætlega. Okkur hefur gengið betur. Saga okkar er náttúrlega mjög ljót með lélega áætlanagerð, ekki aðeins ríkisins heldur okkar Íslendinga. Það hefur kannski eitthvað með veðrið og veiðina o.s.frv. að gera, það er eins og það vanti dálítið í okkur þau gen. En síðan kemur í ljós þegar við verðum fyrir áföllum, eins og við urðum fyrir í bankahruninu 2008 og 2009, að við erum ótrúlega fljót að læra, við erum fljót að sleppa hjálpardekkjunum og hlaupa af stað. Frumvarpið um opinber fjármál er auðvitað merki um að við ættum að gera betur.

Ég hef reynslu af sveitarstjórnarstiginu og að hafa starfað við að vinna fjárhagsáætlanir Reykjavíkurborgar og láta þær fylgja eftir að fjármálareglur í nýjum sveitarstjórnarlögum urðu svona miklu stífari. Og þær eru meira að segja enn þá talsvert stífari en við gerum ráð fyrir í frumvarpinu. Það var mesta furða hvað það gekk ágætlega, hvað við gátum áætlað. Ég segi sjálfur að þegar ég var yngri og vitlausari, ég er nú kannski ekki að drepast úr elli en þegar ég var enn yngri og enn vitlausari þá kom ég mér í fjárhagsleg vandræði bara út af vitleysisgangi. Þegar komið var í óefni lærði ég af því og hef haft þokkalegt vit á því að halda mér réttum megin síðan, svona að áföllum slepptum.