145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræddum í gær fjáraukalög og höldum áfram að ræða þau í dag. Mig langar við þetta tækifæri til að vekja athygli á þeirri breytingartillögu sem liggur fyrir við fjáraukalögin og ýmsir hv. þingmenn tóku undir í gær. Meðal annars játuðu hv. þingmenn stjórnarliðsins að þetta væri málefnaleg tillaga. Hún snýst um að lífeyrisþegar, öryrkjar og eldri borgarar, fái hækkun á launum sínum, ekki aðeins í fjárlögum fyrir árið 2016 heldur líka afturvirka eins og er á hinum almenna markaði.

Mér finnst mikilvægt að við, hv. þingmenn, veltum því fyrir okkur að þó að þessir hópar fái prósentuhækkanir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 þá segja prósentuhækkanir aðeins brot af sögunni. Ég hvet alla hv. þingmenn til að kynna sér þá álitsgerð sem Öryrkjabandalagið kynnti í síðustu viku um hvað þessir hópar fá í raun í tekjur. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur öryrkja sem býr einn og fær greidda heimilisuppbót eru 187.507 kr. Í sömu álitsgerð er búið að reikna út framfærsluþörf hjá barnlausum einstaklingi sem býr einn í eigin húsnæði, það eru 348.537 kr. í ráðstöfunartekjur, sem þýðir 482.846 kr. fyrir skatt.

Það þarf engan geimvísindamann til að sjá að þau laun sem við borgum þessum hópum duga þeim ekki til að framfleyta sér. Það er ekki boðlegt að tala hér um efnahagsbata og betri stöðu ríkisfjármála en sjá ekki sóma sinn í því að tryggja þessum hópum mannsæmandi framfærslu.

Í nýrri skoðanakönnun segir að 90% þjóðarinnar treysti sér ekki til að lifa af 172 þús. kr. (Forseti hringir.) á mánuði og ég er nokkuð viss um að hv. þingmenn mundu ekki treysta sér til þess. Ég held að við ættum að sjá sóma okkar í því að samþykkja breytingartillögu minni hlutans við fjáraukalagafrumvarpið sem og við fjárlagafrumvarpið 2016 og tryggja þessum hópum boðlega framfærslu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna