145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég gerði að umræðuefni undir þessum lið fyrir tveimur dögum þá fákeppni sem ríkir á mikilvægum mörkuðum fyrir neytendur og hve skaðleg þessi staða er. Ég ræddi um olíufélögin og að svokölluð frummatsskýrsla Samkeppniseftirlitsins gefi vísbendingar um fákeppni á þeim markaði sem kosti neytendur og samfélagið allt 4 milljarða á ári sem er algjörlega óásættanlegt.

Lítil sem engin virk samkeppni er á bankamarkaði, þar ríkir friðsældin ein og allir bjóða það sama eða um það bil. Það þýðir að það er mjög dýrt að taka lán því að vextir eru háir og þjónustugjöld eru há, en svo þegar maður ætlar að leggja pening inn í bankann eru vextirnir afar lágir.

Nú hefur bæst við enn einn fákeppnismarkaðurinn og það eru fyrirtæki sem selja almenningi rafmagn. Neytendasamtökin ákváðu að bjóða út rafmagnsverð fyrir félagsmenn sína til að fá hagstæðara verð og ýta undir samkeppni á þessum markaði. Og viti menn, nú liggja fyrir niðurstöður útboðsins. Aðeins eitt fyrirtæki sendi inn tilboð, Orkusalan, dótturfyrirtæki Rariks, sem bauð 0,65% afslátt frá gildandi verðskrá, hvorki meira né minna. Neytendasamtökin höfnuðu tilboðinu enda um afar lítinn ávinning að ræða fyrir viðskiptavininn.

Niðurstaðan er sem sagt fákeppni, ekki bara á eldsneytismarkaði, bankamarkaði og víðar hér á landi, heldur bætist núna einnig við raforkumarkaður. Það hefur lítið upp á sig fyrir íslenska neytendur að beina viðskiptum sínum til annars aðila en þeir eru þegar í viðskiptum við.

Ég spyr mig: Hvers eiga íslenskir neytendur að gjalda? Þeir eru fastir á fákeppnismarkaði þar sem á að ríkja frjáls samkeppni og verða fyrir fjárhagslegu tjóni á hverjum degi vegna þessa.


Efnisorð er vísa í ræðuna