145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég gerði hér að umtalsefni fyrir tveim dögum, einmitt undir þessum dagskrárlið, nýjustu uppfærslu landlæknisembættisins á biðlistum eftir aðgerðum í heilbrigðiskerfinu. Það er greinilegt að einhverjir eru að fylgjast með útsendingum héðan því að ekki varð ég var við að fjölmiðlar skiluðu þessu mikið, en svo ber við að ég hef fengið talsvert af bréfum frá fólki sem er nákvæmlega í þessari stöðu. Það bíður, jafnvel sárþjáð, eftir hnjáliða-, mjaðmaliða- eða augnaðgerðum. Ég ætla ekki að rekja þá pósta í einstökum greinum enda eru þeir sendir mér í trúnaði, en það stingur í hjartað að lesa frá fólki sem hefur jafnvel gengið hnjáliði sína eða mjaðmaliði upp til agna í þjónustu við hið opinbera en situr svo heima sárþjáð, jafnvel óvinnufært, og á að bíða í tvö til þrjú ár.

Það er ekkert vit í þessu nema meiningin sé að svelta hið opinbera heilbrigðiskerfi í hel og láta þessar aðgerðir fara fram á einkastofum, annaðhvort hér á landi eða erlendis.

Nú stendur yfir fjárlagagerð. Það er nokkurt borð fyrir báru, árar sem betur fer betur hjá ríkinu, og ég held að það sé algerlega einboðið að taka til skoðunar að forgangsraða verkefnum. Þau eru mörg en ég held að umræðan hér að undanförnu og aðstæður sem við stöndum frammi fyrir kalli á að tvennt verði sett í forgang, annars vegar að skila kjarabótum til aldraðra og öryrkja eins og annarra landsmanna, hvort sem um það hefur samist á almennum vinnumarkaði eða kjaradómur hefur verið rausnarlegur að úrskurða mönnum afturvirkar launahækkanir, og hins vegar að setja umtalsverða peninga í að vinna upp þessa óþolandi löngu biðlista í heilbrigðiskerfinu.

Þetta er ekki boðlegt ástand. Við getum ekki haldið því fram að við séum með fyrsta flokks heilbrigðiskerfi í landinu meðan þetta ástand er. (Forseti hringir.) Við eigum að ganga í þetta verk, við erum með mannaflann, tækin og aðstöðuna en það þarf fjármuni til að nýta þá getu sem til staðar er í landinu til að leysa úr þessu máli.


Efnisorð er vísa í ræðuna