145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram er fjárlagavinnan mönnum ofarlega í huga og af því tilefni langar mig að ræða aðeins stöðu íslenskrar tungu.

Fram hefur komið að forstöðumaður tölvuöryggismála hjá Google, Úlfar Erlingsson, hélt erindi á aðalfundi Hins íslenska bókmenntafélags og taldi að íslenskan væri á hröðu undanhaldi. Hann sagði jafnframt að tæknin sem þyrfti til að reisa varnir fyrir íslenska tungu væri til en að við værum í kapphlaupi við tímann. Hans orð voru þau að tæknin réði vel við að talsetja nú þegar einfalt efni en að eftir þrjú ár eða svo yrði hægt að talsetja allt efni með þeirri tækni sem þá yrði til.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku, hefur tekið undir þessi orð. Við höfum rætt þetta í þingsal og að frumkvæði okkar á Alþingi hefur umræðan verið tekin um stöðu íslensku í stafrænum heimi. Smátt og smátt hefur orðið til skilningur hér innan búðar, meira að segja hjá hæstv. ráðherra sem kom fram hér á degi íslenskrar tungu, um að það þurfi verulegt fjármagn til að reisa varnir til að styrkja stöðu íslenskunnar.

Eiríkur Rögnvaldsson fullyrðir að íslenskan standi mjög höllum fæti og lykilatriðið sé að hún verði notuð á öllum sviðum samfélagsins, að hún verði ekki einangruð við tiltekin svið samfélagsins heldur notuð á þeim öllum.

Við höfum enn ekki séð breytingartillögur meiri hlutans við fjárlagafrumvarpið. Það er sameiginlegur skilningur á því að það þurfi 200 millj. kr. á ári til að fara í þessa varnarbaráttu. Ef við förum ekki í hana strax verður ekki aftur snúið, eftir fimm eða tíu ár verður ekki aftur snúið, þannig að ég vænti þess í samræmi við þann skilning sem hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra að við sjáum myndarlega (Forseti hringir.) breytingartillögu frá meiri hlutanum við 2. umr. fjárlaga og að við sjáum 200 millj. kr. framlag í þetta verkefni. Ef ekki, þá mun minni hlutinn leggja fram slíka tillögu og væntir þverpólitísks stuðnings við hana.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna