145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni kynferðisbrot á Íslandi. Nýlegir dómar hafa valdið áhyggjum og furðu og því er rétt að fara aðeins yfir það hvort eitthvað sé hægt að laga í málsmeðferð til að ná betri árangri hvað dóma varðar.

Um það bil 120 aðilar að meðaltali leita til neyðarmóttöku á hverju ári. 40% eru undir 18 ára og eru þess vegna börn í skilningi laganna. Eitt sem vekur athygli og ætti kannski ekki að vera neitt nýtt er að í 95% tilfella neitar gerandi sök.

Ríkissaksóknari í Bretlandi hefur ákveðið að breyta nokkuð áherslum lögreglu í rannsóknum á svona málum. Í Bretlandi er 85 þúsund konum nauðgað á hverju einasta ári. Rúmlega 18 þúsund kæra, 2.900 mál koma fyrir rétt og það er sakfelling í rúmlega 1 þúsund málum — af öllum þessum fjölda.

Þetta er ekki alveg svona slæmt hjá okkur en engu að síður er full ástæða til að fara að dæmi Breta sem nú ætla að fara að setja fókusinn á gerandann en ekki þolandann í rannsókn mála. Bretar ætla að krefjast þess að meintir gerendur upplýsi um það hvort þeir hafi fengið upplýst samþykki fyrir kynlífsathöfnum. Margir hafa orðið til þess að gera grín að þessu og segja að það sé ekki hægt að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis, en þetta er alvörumál og það er engin hemja hvað fórnarlömbum gengur illa að koma fram vegna þess hvernig rannsóknum er hagað. (Forseti hringir.) Í þessum málum verða hagsmunir fórnarlamba að vera ríkari en hagsmunir meintra gerenda.


Efnisorð er vísa í ræðuna