145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún kom ágætlega inn á marga þætti. Þetta með vanáætlun í arðgreiðslum er umhugsunarvert. Nú er það ekki bara í ár heldur í fyrra líka sem arðgreiðslur voru vanáætlaðar svo nam háum fjárhæðum. Á síðasta ári voru áætlaðir um 6 milljarðar en 25,6 skiluðu sér. Núna eru áætlaðir 6 milljarðar og eitthvað álíka á að skila sér. Er þetta eitthvað sem er með ráðum gert? Telur hv. þingmaður að það eigi að láta líta út fyrir í fjárlögum að arðgreiðslur verði svona miklu lægri upphæð?

Við þekkjum það af fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar að hluti af því að fjármagna hana voru arðgreiðslur og veiðigjöld sem hafa, eins og hv. þingmaður kom inn á, lækkað mjög mikið frá því að þessi ríkisstjórn tók við og ekki í þágu þeirra sem þurftu á því að halda, þ.e. lítilla útgerða og þeirra sem voru ekki staddar á sama stað og stórútgerðirnar sem græddu á tá og fingri.

Hefur hv. þingmaður einhverja skýringu á því af hverju þessar vanáætlanir eru varðandi arðgreiðslurnar? Er þetta gert með ráðnum hug eða ráða menn ekki við það hlutverk að áætla miðað við það hvernig arðgreiðslur hafa verið undangengin ár? Hvað veldur þeirri miklu skekkju sem kemur fram ár eftir ár?