145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Því miður hvarflar það að manni að þetta geti hugsanlega verið með vilja gert.

Ég held að meðferð fjárlaga og fjáraukalaga hafi lagast mjög með tímanum. Ég hef ekki gert á þessu rannsókn, virðulegi forseti, en ég held að fjáraukalögin séu núna minni partur en þau voru áður og það er til hins góða því að þau eiga helst ekki vera nein.

Á hinn bóginn held ég að við séum í svolítið vondum málum ef þeir sem áætla í bönkunum fyrir ríkisfjármálin hver arðurinn verður og þar fram eftir götunum eru ekki betri í áætlunum en þessi mismunur ber vitni um. Þess vegna hlýtur að hvarfla að manni að þetta sé með vilja gert til þess að lenda ekki í þeirri umræðu sem þarf náttúrulega að halda á lofti af því að menn sögðu að það væri ekki til fyrir fjárfestingaráætluninni sem var samþykkt hér fyrir nokkrum árum því að það kom í ljós að það var vel til fyrir henni og meira en það. Kannski eru menn að forðast það. Síðan líka, ef menn hafa hugmynd um að það hendist einhverjir milljarðar inn í fjáraukalögum þá gefur það þeim tækifæri til þess að setja peninga í eitt og annað án þess að umræða fari fram um það í þinginu. Það er það sem er svo alvarlegt þegar menn veita peninga í fjáraukalögum því að þá verður umræðan (Forseti hringir.) um þær fjárveitingar ekki sem skyldi. Það er vont mál.