145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Einmitt, þegar vanáætlað er af þessu tagi þá taka menn sér ekki einungis vald sem þeir hafa ekki. Í samgöngumálum eru til dæmis ákveðnar leikreglur sem á að vinna eftir, en með því að beita fjáraukalögunum á þennan hátt þá fara menn fram hjá öllum þeim leikreglum og segja bara: Það vantar peninga. Enginn efast um að það vanti peninga þarna inn en það er hins vegar þingsins að forgangsraða í þessum efnum en ekki ríkisstjórnarinnar eða Stjórnstöðvar ferðamála eða hvaða nafni það er kallað hverju sinni. Það á auðvitað ekki að vera þannig og þess vegna skiptir verklagið máli. Það skiptir líka máli fyrir einmitt sveitarfélögin, eins og hv. þingmaður nefnir, og fyrir aðra sem ætla að sækja í þessa sjóði og þar fram eftir götunum að þeir viti hvað er til ráðstöfunar.

Eða hvað? Ætlumst við til þess að menn í sveitarfélögum og annars staðar sitji og segi: Iss, það er ekkert að marka þessi fjárlög, ég sæki bara samt um þó að ég viti að ekkert sé í þessum potti því að einhver ætlar að gera eitthvað. Er það kannski þannig að einhverjir sem eru betri vinir þeirra sem eru í ríkisstjórninni og vita hvað á að setja í fjáraukalögin en aðrir geti vitað að þarna eigi að bæta í og þess vegna telji þeir að sér sé óhætt að sækja um?

Virðulegi forseti. Þetta skekkir allar leikreglurnar. Það er vont. Svo erum við að fara að tala um opinber fjárlög á eftir og það á að verða til þess að laga þetta meira. Það er gott, en meira að segja innan þeirra laga sem við höfum í dag er illa staðið að verki.