145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:43]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það kemur mér ekkert á óvart að ég og hv. þingmaður séum ekki sammála um hvort bjóða eigi kvótann upp á markaði eða ekki. Það er kannski svolítill orðaleikur hjá mér að segja að þá ákveði þeir veiðigjaldið sjálfir. Þeir segja að veiðigjaldið sé allt of hátt og eitthvað svoleiðis. En ef það er á uppboði og þeir bjóða í það þá ákveða þeir það sjálfir, en kannski ekki alveg þannig eftir orðanna hljóðan.

Nei, það er síður en svo þannig að sjá megi af verkum þessarar ríkisstjórnar að hún beri hag aldraðra og öryrkja sérstaklega fyrir brjósti. Það er ætlunin núna. Mér skilst að það sé þannig í fjárlagafrumvarpinu að hækka eigi bætur til þeirra um rétt rúm 9% um áramótin. En menn eru nú búnir að reikna út að hækkunin sem þeir eiga inni sé 10 komma eitthvað prósent. Alveg eins og hv. þingmaður sagði þá munar sko virkilega um prósenturnar þegar tekjur eru svo lágar, enda höfum við kannski frekar verið að tala um krónuhækkanir fyrir þetta fólk því að prósenturnar gefa því miður ekki alltaf mjög margar krónur.

Því miður er ekki að sjá að ríkisstjórnin beri hag þessa fólks mikið fyrir brjósti. Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði áðan: Ég tel það vera því fólki sem situr í þessum sal til skammar ef við samþykkjum ekki (Forseti hringir.) breytingartillögu minni hlutans.