145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:07]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé gott að hafa söguna klára hvað varðar afstöðu til skattanna, þar á meðal auðlegðarskatts. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gera það. Við erum sammála um að hlutverk skattkerfis er tvíþætt, að afla tekna og jafna kjör. Þar greinir á milli félagshyggjufólks og þess fólks sem ekki er félagshyggjufólk, síðari hópurinn horfir fyrst og fremst á skattkerfið sem tekjuöflun.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að beina sjónum að einkavæddri heilsuþjónustu. Ég þakka þingmanninum jafnframt fyrir skrif og framgöngu hvað það varðar á undanförnum dögum og vikum. Það er mjög mikilvægt að við fylgjumst vel með þessum málum. Ég skrifaði ítarlega grein sem birtist í DV í dag þar sem ég beini þremur spurningum til heilbrigðisráðherra. Við þurfum að vekja samfélagið allt til vitundar um hvað raunverulega er að gerast. Í kyrrþey er verið að reyna að svelta almenna kerfið. Núverandi forseti vakti máls á þessu undir liðnum um störf þingsins í morgun, varðandi liðskiptaaðgerðir, og spurði hvort það gæti verið að verið væri að draga úr framlögum til hinnar opinberu heilbrigðisþjónustu til að hygla hinum. Hér bendir hv. þingmaður á dæmi um þessar mismunandi áherslur.

Ég hvet til þess að við stöndum þessa vakt, ekki bara í þessum sal heldur í samfélaginu öllu, vegna þess að ítrekað hefur komið fram, nú síðast í ágætri grein Rúnars Vilhjálmssonar prófessors í Fréttablaðinu 27. nóvember síðastliðinn þar sem hann vísar í kannanir sem leiða það í ljós, að yfirgnæfandi (Forseti hringir.) meiri hluti Íslendinga á öllum aldri og í öllum stjórnmálaflokkum er á því að við eigum að hafa hér kerfi sem er rekið af hinu opinbera að uppistöðu til.