145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni kærlega fyrir ræðuna. Eins og við vitum verður þingmönnum, sérstaklega Vinstri grænna, tíðrætt um einkavæðingu. Af því að ég man það langar mig að nefna við þingmanninn að núverandi ríkisstjórn hélt þeim tannlæknasamningum sem fyrri ríkisstjórn fór í varðandi niðurgreiðslur. Þeir samningar sem vinstri stjórnin gerði við tannlækna skiptu mörgum hundruðum milljóna króna á ári. Nú eru þeir allir sjálfstætt starfandi, en vissulega er það heilbrigðisgeirinn. Vill þingmaðurinn bakka út úr þessu fyrirkomulagi og stofna til ríkisrekinna tannlækna?

Við skulum átta okkur á tvískinnungnum í málflutningi vinstri manna akkúrat í þessum heilbrigðismálum. Það er fullt af einkarekinni heilbrigðisþjónustu í landinu og var stofnað til ýmissa slíkra hluta í tíð síðustu ríkisstjórnar. Við erum að tala um sjúkraþjálfara til dæmis en svo er alltaf vöndurinn á lofti hjá þessum sömu aðilum sem bölva sífellt því fyrirkomulagi að við Íslendingar höfum ákveðið að fara þessa góðu blönduðu leið.

Hér má líka nefna endurhæfingarstöðvar eins og Reykjalund og Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Talar þingmaðurinn virkilega fyrir því að við förum út úr þessu fyrirkomulagi, að þetta verði allt saman ríkisrekið og allt saman á kostnað ríkisins? Sá vöndur kemur alltaf á loft í fjárlagagerðinni að við séum vonda fólkið sem ætlum að fara með alla heilbrigðisþjónustu í einkavæðingu.

Virðulegi forseti. Ég hafna þessum rökum því að blandaða leiðin er stefna Framsóknarflokksins.