145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:17]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að biðja hæstv. forseta um að sjá til þess að ég verði settur á mælendaskrá að nýju.

Vil ég bakka út úr kerfi sjálfstætt starfandi lækna? Nei, ég hef margoft skýrt frá því að ég telji að Íslendingar búi við ágætan kokteil í þessum efnum. Við erum með einhverjar sjálfstætt starfandi stofur, en slysið sem varð með tannlækna á sínum tíma var að þeir fóru út úr heildarsamningi. Það er það sem þarf að vera og það er þetta sem Svíar gættu vel að og hafa reynt að gæta að. Þar sem þeir hafa ekki gert þar hafa þeir reynt að taka það til baka. Það er ekki hægt að hafa tvennt í senn, að skattborgarinn niðurgreiði eða borgi fyrir þjónustuna og síðan séu læknarnir sjálfráðir í að smyrja ofan á. (VigH: Tannlæknar.) Þannig var það með tannlæknana og það er verið að reyna að bakka því til baka. Það er gott og það er það sem við vorum að reyna að gera, að bakka því til baka þannig að það væri heildstæður samningur og það væri samningsbundið hvað væri greitt úr tryggingum og hvað kæmi frá sjúklingnum. En þeir fóru út úr þessu kerfi, illu heilli. Það er þetta sem við höfum verið að hvetja til að verði reynt að passa upp á.

Ég er ekki andvígur því að það séu einhverjar einkaklíníkur — klíník er óheppilegt orð því að klíníkin er komin og hún er allt annað en einkaklíník — en það sem er hins vegar að gerast er að þar eru fjárfestar komnir inn og það er nýjungin sem er að gerast núna, það eru að koma inn aðilar sem ætla að hafa arð af þessu. Það er allt annað en einkapraxísinn hjá lækni með sína stofu þar sem hann nýtur (Forseti hringir.) starfs síns sjálfur. Þetta er allt annað kerfi sem við erum að fara inn í núna.