145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:45]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég verð að segja að mér er eiginlega alveg sama hvort það voru 5% 1998–2008 eða 1,5% 2008–2015. Vissulega er það breyting til hins betra og vonandi erum við á þeirri leið, vonandi förum við þá leið með frumvarpið um opinber fjárlög. En engu að síður hafa öll fjáraukalög verið með þeim hætti að þar hefur ekki eingöngu verið inni það sem var ófyrirséð. Ekki í einu einasta fjáraukalagafrumvarpi hefur komið fram að þar hafi menn aðeins verið að bregðast við hinu ófyrirséða. Staðan hefur verið betri frá 2008–2015, og það er gott, og kemur það sjálfsagt til af því að við stóðum þá höllum fæti vegna hruns. Hér hrundi allt. Þar af leiðandi var enn minna umleikis. Það er sorglegt að sjá og vita að þegar meira er umleikis, þegar ríkissjóður hefur úr meira að spila eru fjáraukalögin hærri en þegar við höfum úr minna að spila. Það segir nú líka sína sögu, virðulegur forseti.

Ég sagði áðan í ræðu minni og ég ætla að láta það vera svar við því sem hv. þingmaður spyr mig að: Stofnunum ber að fara eftir því sem stendur í fjárlögum og það sem þar er sett inn eru lög. Það er þá ábyrgð þeirrar ríkisstjórnar sem ákveður að draga úr eða skerða þjónustu með þeim hætti að setja ekki nægilegt fjármagn inn. En það er ekki af því að það eigi að vera fyrirsjáanlegt að það eigi að gera eitthvað miklu meira en ætlast er til miðað við fjárlögin. Þannig lít ég á fjárlögin, virðulegur forseti og hv. þingmaður.