145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður rakti hlutverk fjáraukalaga og fór ágætlega yfir það og rakti að þar ætti ekkert að sjást nema það sem væri ófyrirséð eða kæmi til af óhjákvæmilegum ástæðum vegna ófyrirséðra atvika o.s.frv., eins og segir með mjög skýrum hætti í fjárreiðulögum. Þar er ég sammála hv. þingmanni. En síðan þegar hv. þingmaður sagði í ræðu að fólk gæti verið ósammála um þetta þá er ég ósammála því að fólk geti verið ósammála um það vegna þess að það er mjög skýrt í lögunum að svona er þetta. Hins vegar rakti hún með ágætum hætti sérstöðuna þegar kjarasamningar eru annars vegar, þ.e. þegar um ófyrirséða atburði af því tagi er að ræða þá er ekki rétt að sýna á spilin eins og ég held að hv. þingmaður hafi orðað það. Vegna kjarasamninga verður til aukin fjárþörf og hennar sér stað í tillögum meiri hlutans vegna endurmats á launagrunni fjárlaga fyrir árið 2015 sem hafa átt sér stað umfram það sem reiknað var með á fjárlögum vegna hækkunar launa í kjarasamningum.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann um það hvort ekki sé um algjörlega sambærilegt mál að ræða þegar um er að ræða þá hópa sem heyra undir okkur að því er varðar þeirra kjör sem eru öryrkjar og aldraðir.