145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[13:02]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég svara aftur eins og ég svaraði áðan. Greiðslur til öryrkja úr almannatryggingakerfinu og greiðslur grunnlífeyris eða ellilífeyris úr almannatryggingakerfinu eru ekki bundnar samningum á almennum markaði. Það eru ákveðnar forsendur sem liggja að baki því hvernig á að hækka þær greiðslur og eftir þeim ber okkur á þingi að fara, okkur sem setjum lög þar að lútandi. Það er í fjárlagafrumvarpinu 2016 að ég held 9,7% hækkun til öryrkja og sömuleiðis inn í ellilífeyrinn.

Við getum hins vegar tekist á um, virðulegur forseti, hvort sú krónutala sé nægjanleg til þess að við nálgumst það sem við kannski flest viljum að öryrkjar geti lifað mannsæmandi lífi og framfleytt sér af örorkubótum. En mér finnst ekki, virðulegur forseti, að sömu (Forseti hringir.) lögmál eigi að gilda um greiðslur úr almannatryggingakerfinu og samið er um á frjálsum markaði.