145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[13:47]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefnir sérstaklega útgjöld til Vegagerðarinnar og samgöngumála og er ekki rétt hjá mér, virðulegi forseti, ég ætti kannski að biðja hv. þingmann að útskýra það fyrir mér, að verið sé að úthluta núna fjármunum til fjögurra vega, m.a. Kjósarskarðsveg og í kringum Dettifoss, og það sé tekið alveg hreint fram hjá samgönguáætlun? Nú efast enginn um að það þarf að laga þessa vegi en þarf ekki samt sem áður að gera það aftur eftir þeim leikreglum sem við höfum ákveðið hér?

Síðan verð ég að viðurkenna að ég hef kannski ekki fylgst nógu vel með eða eitthvað hefur farið fram hjá mér, en hv. þingmaður segir að verið sé að tala um hvítbók um samgöngur. Ég hef ekki fylgst nógu vel með í þessum málum, virðulegi forseti, en er þá eitthvað á prjónunum um að fara að leggja samgönguáætlun til hliðar? Getur hv. þingmaður greitt eitthvað úr þessu fyrir mér? Á það ekki enn þá að vera þannig að það eigi að kveða á um höfuðverkefni og forgangsverkefni í samgöngum í samgönguáætlun og það eigi að vera til umræðu í þingsal? Eða ætla menn að flytja það inn í ráðuneyti eða í einhver bakherbergi eða á kjördæmafundi eða hvað er í gangi, virðulegi forseti?