145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Aukin vopnvæðing lögreglubíla hefur verið í umræðunni að undanförnu og það er ástæða þeirrar umræðu sem ég hef nú óskað eftir við hæstv. innanríkisráðherra. Ég vil fyrst taka fram að það er til fyrirmyndar með hvaða hætti hæstv. innanríkisráðherra hefur almennt nálgast spurningar um vopnaburð lögreglunnar með opinberri birtingu reglna um valdbeitingarheimildir og vopnaburð lögreglu í fyrra og með hversu opnum hætti hún hefur viljað ræða það. Það er mjög mikilvægt að gagnsæi ríki að þessu leyti, því að með sama hætti og vopn geta aukið öryggi borgaranna og verið til varnar lögreglumönnum geta þau líka aukið hættu jafnt fyrir almenning og lögreglumenn, dregið úr öryggi en ekki aukið það. Þau geta kallað á harðari heim. Þau geta kallað á harkalegri viðbrögð glæpamanna og það er ekkert gefið um það að við upplifum öll öryggi þegar við sjáum þungvopnaða lögreglumenn.

Í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað undanfarið hefur verið mjög óþægilegt að svo virðist sem ákvarðanir hafi verið teknar um að setja vopn í einhvern fjölda lögreglubíla hér á höfuðborgarsvæðinu og þjálfun almennra lögreglumanna í beitingu þeirra og breyting á útbúnaði bílanna var komin á lokastig þegar fjölmiðlar greindu frá því. Mér finnst það ekki ríma við þær áherslur sem ég tel að skipti mestu máli í þessu, þ.e. gagnsæi ríki um vopnaburð og valdbeitingarheimildir, og að allir viti hvernig í pottinn er búið að þessu leyti.

Ég fagna þeim yfirlýsingum sem ég hef séð frá hæstv. ráðherra í fjölmiðlum um að hér sé ekki um að ræða breytingu á almennum vopnabúnaði lögreglumanna, en umfang og forsendur þessara ákvarðana eru um margt óljósar. Því hef ég óskað eftir þessari umræðu.

Það þarf að spyrja um lagagrunninn, því að í 19. gr. þeirra reglna sem birtar hafa verið segir að geyma skuli skotvopn á lögreglustöð, en að lögreglustjóri geti þó ákveðið í samráði við ríkislögreglustjóra að skammbyssur séu hafðar með í lögreglubifreið í sérstökum tilfellum. Mér finnst það í hæsta máta vafasamt að reglurnar rúmi það að skotvopnum sé að staðaldri komið fyrir í lögreglubílum.

Það þarf líka að spyrja: Hver eru rökin að baki breytingum að þessu leyti? Af viðtölum við hæstv. ráðherra í fjölmiðlum má ráða að hér sé að einhverju leyti um að ræða viðbrögð við atburðunum í Útey 2011. Hvaða greining liggur þá þar að baki? Hvaða umfjöllun hefur átt sér stað á vettvangi lögreglunnar, af hálfu sérfræðinga, um hvaða hættum er verið að reyna að bregðast við með þessari breytingu? Ég held að það sé óumflýjanlegt að slíkar upplýsingar liggi fyrir og séu öllum aðgengilegar.

Það má líka velta fyrir sér: Hver eru bestu viðbrögðin við vaxandi hættu? Er það aukinn vopnabúnaður lögreglu sérstaklega þegar við búum nú við þær aðstæður að lögreglumenn eru í vaxandi mæli einir í bifreið, sem hlýtur líka að bjóða hættum heim? Eða er lausnin kannski aukin sýnileg löggæsla? Fleiri lögreglumenn á göturnar? Betri aðbúnaður almennrar löggæslu að því leyti? Fjölgun í löggæslunni? Það eru allt spurningar sem við þurfum að ræða opið og ekki hrapa að ályktunum. Það er mjög mikilvægt líka þegar við horfumst í augu við aukna hryðjuverkaógn í nágrannalöndum að við metum af yfirvegun hvaða viðbúnað þurfi að hafa, en til þess þurfa staðreyndir að liggja uppi á borðum og greiningar að vera öllum ljósar, og sérstaklega þarf umræða að eiga sér stað hér á Alþingi um stefnu að þessu leyti.