145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:20]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir þakka ég þessa umræðu. Vopnaburður lögreglu er mál sem varðar líf og öryggi samborgaranna en ekki síður lögreglunnar. Þetta mál er af því tagi að það vekur eiginlega stórfurðu að ekki skuli vera um það skýr rammi í íslenskri löggjöf. Þess í stað eru til reglur sem nú hafa verið birtar um vopnaburð þar sem ráðherra framselur vald sem honum hefur verið fengið til ríkislögreglustjóra sem að hluta til framselur áfram vald til einstakra lögreglustjóra til að taka ákvarðanir um vopnaburð og meta aðstæður.

Þessar reglur eru á köflum mjög almennt orðaðar. Ég vek athygli á c-lið 34. gr. sem heimilar að beita vopnum til að koma í veg fyrir að verulegu tjóni sé valdið á þjóðfélagslega mikilvægum hagsmunum eða stofnunum, eins og þar segir. Það hlýtur hver maður að sjá að þetta er allt of almennt orðalag fyrir yfirmann óbreytts lögreglumanns til að taka ákvörðun um hvort hann beiti byssu sinni eða ekki. Það nær engri átt að Alþingi skuli ekki sjálft setja lagaramma um mál af þessu tagi með þeirri faglegu umfjöllun og sérfræðiráðgjöf sem slík lagasetning útheimtir. Það er stór og afdrifarík ákvörðun að útsetja íslenska lögreglumenn fyrir auknu ofbeldi á götum úti því að við vitum að vopnabúnaður kallar á viðbúnað glæpamanna sem eykur stigmögnun hörku, ótta og ógnar í samskiptum.

Sjálf óttast ég þá þróun sem nú er hafin með auknum vopnaburði lögreglu því að hún hlýtur líka að kalla á stóraukið og sjálfstætt eftirlit með lögreglunni eins og þingmenn hafa bent á, t.d. hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, (Forseti hringir.) og hlýtur að útheimta líka aukna fjármuni sem ég tek undir með málshefjanda að ég hefði frekar viljað sjá renna til aukinnar þjónustu lögreglunnar, fjölgunar lögreglumanna og bættra kjara þeirra.