145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Umræðan um vopnaburð lögreglunnar sem skýtur upp kollinum síendurtekið hér inni, í fjölmiðlum og víðar sýnir að þjóðin er mjög á varðbergi gagnvart öllum hugmyndum um að auka vopnaburð lögreglunnar. Það gleður mig við þessa umræðu að mér heyrist flestir leggja sig fram um að eyða allri tortryggni í þeim efnum. Það stendur ekki til að almennir löggæslumenn beri vopn. Allur slíkur vopnaburður er háður skýrum reglum.

Að því sögðu finnst mér mikilvægt að ræða líka aðra þætti löggæslustarfa en vopnaburð. Mér finnst það hafa verið gert undanfarið og í þessari umræðu. Við erum að ræða hér þörfina á því að auka almenna löggæslu. Þetta er einfaldlega fjársveltur málaflokkur eins og svo margt í okkar samfélagi eftir mörg þrengingarár. Vinnuálag er mikið. Við verðum líka að skoða þjálfun lögreglumanna og aðbúnað að öðru leyti en vopnaburð, bílakost og þar fram eftir götunum. Það þarf að fara heildstætt í þetta.

Eitt áhugaverðasta innleggið í þessi mál las ég í viðtali við Karl Steinar Valsson, sem ég held að vinni hjá Europol núna, í Fréttablaðinu um daginn þar sem hann sagði að eðli svona viðureigna við glæpastarfsemi breyttist hratt. Hann talaði um mikilvægi þess að gera skipulagsbreytingar og breytingar á því hvernig lögreglan vinnur. Glæpasamtök núna eru ekki einskorðuð við einhvern einn hlut. Þau eru ekki bara í mansali eða eiturlyfjainnflutningi, þau eru farin að gera alls konar hluti í einu, jafnvel farin að nota verktaka til að gera hluti fyrir sig. Þetta er orðið mjög flókið og umfangsmikið, og mikilvægt að lögreglan geri skipulagsbreytingar til að geta nálgast þetta, ekki í hólfum (Forseti hringir.) eða með veggjum innan borðs heldur heildstætt. Þetta finnst mér mjög áhugavert. Mig langar til að ræða þetta einhvern tíma en ekki bara löggæslumál þegar hörmuleg dæmi koma upp úti í heimi sem varða skotvopn og þá ræðum við vopnaburð. Við þurfum líka að ræða aðbúnað, þjálfunarmál og skipulag löggæslunnar.