145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nú vildi ég að ég hefði aðeins meiri tíma, m.a. til að svara hv. þingmanni sem talaði á undan mér um að ala á ótta gagnvart lögreglunni en ég ætla að sleppa því sökum tímaskorts í bili. Það sem er að mínu mati hættulegast við þá þróun að lögreglan hafi meiri aðgang að vopnum eða fjölgi þeim, sem ég veit að er ekki hér til umræðu, er að mannekla, skortur á þjálfun, lág laun, ósanngjörn starfsskilyrði og því um líkir brestir eru enn til staðar. Ef þeir eru til staðar og farið er í að auka vopnaburð — ég er ekki að tala um það sem fyrirhugað er núna heldur það sem var í umræðunni tiltölulega nýlega og ég geri ráð fyrir að komi upp aftur — er mikilvægast að við séum búin að laga þær brotalamir sem ellegar kalla á meiri vanda. Ef fleiri lögreglumenn eru til staðar eru minni líkur á að beita þurfi að valdi, sér í lagi einhvers konar skotvopnavaldi.

Ég tek undir með hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, við ættum að endurskoða lagaumgjörðina í kringum þetta. Í meginatriðum er lögreglan undanskilin vopnalögum. Vissulega sér ráðherra um þau mál og svo vill til að akkúrat núna er mjög ágætur hæstv. innanríkisráðherra í því. Það verður hins vegar ekkert alltaf endilega þannig. Samkvæmt núgildandi löggjöf getur vel stefnt í óefni ef annarlegir hvatar eru á bak við sem er ekki tilfellið núna en getur orðið seinna. Mér finnst alveg þess virði að endurskoða löggjöfina með hliðsjón af því að til sé betri lagarammi utan um það hvað sé heimilt og hvað ekki.

Síðast en ekki síst vil ég nefna að lögreglan fundar núna með hv. allsherjar- og menntamálanefnd um þörf sína á skotvopnum og valdbeitingarheimildum. Það er til bóta en enn vantar að alþingismenn hafi góða leið til að segja frá því sem gerist á þeim fundum vegna þess að þeir eru lokaðir. Sömuleiðis þykir mér að við ættum að hafa einhverja leið til að taka þátt (Forseti hringir.) í ákvörðununum, jafnvel þótt það væri bara til að veita umsagnir. Nú hef ég ekki tíma fyrir meira og harma það mjög.