145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir yfirstandandi fjárlagaár, árið 2015. Ég ætla fyrst og fremst að ræða hér fjögur málefni, reyndar öll mjög stór og mikilvæg; heilbrigðismálin, flóttamannamálin, barnabætur og almannatryggingar.

Þegar fjáraukalögin eru lesin og litið til heilbrigðismálanna endurspeglast þar sá djúpstæði vandi íslenska heilbrigðiskerfisins að við erum með tvö ólík kerfi hér í landinu, annars vegar einkavædda heilbrigðisþjónustu og hins vegar opinbera þjónustu. Þessi tvö ólíku rekstrarform njóta ekki jafnræðis þegar kemur að fjárveitingum. Við sjáum engin merki hér um að verið sé að bæta erfiða rekstrarstöðu Landspítalans eða heilsugæslunnar, sem eru hinar opinberu stofnanir. Eina heilbrigðisstofnunin á landsbyggðinni sem fær eitthvað fær fé til þess að reisa gámabyggingar. En það vantar ekki að verið sé að bæta í heilbrigðiskerfið á yfirstandandi fjárlagaári, það fer til sjálfstætt starfandi sérgreinalækna og í einkarekna heilsugæslu. Sérgreinalæknarnir sem eru með samninga við Sjúkratryggingar fá tæplega 2 milljarða í viðbótarfjárveitingu á yfirstandandi fjárlagaári á meðan Landspítalinn, sem ekki hefur fengið fé til þess að mæta aukinni þjónustuþörf og ekki hefur að fullu fengið bættar kjarasamningshækkanir heilbrigðisstétta á yfirstandandi ári, stendur eftir óbættur hjá garði. Það eru alvarleg tíðindi. Hér er verið að ýta enn frekar undir þá þróun að opinn krani Sjúkratrygginga sé opnaður meira á kostnað opinbera kerfisins. Þá erum við að tala um heilsugæsluna sem allir flokkar eru sammála um að eigi að vera grunnstoðin í íslensku heilbrigðiskerfi. Heilsugæslan fær ekkert í þessum fjáraukalögum í samanburði við tæpa 2 milljarða sem sjálfstætt starfandi sérgreinalæknar fá. Og Landspítalinn fær ekkert nema hrokafullar skammir frá meiri hluta fjárlaganefndar. Er það til mikilla vansa fyrir það fólk.

Eins og ég sagði er það einkarekna heilsugæslan sem fær eitthvað af því að hún er með sérstaka samninga við Sjúkratryggingar. Einkarekin heilsugæsla í Salahverfi fær 20 milljóna viðbótarfjármögnun vegna þeirrar tegundar samninga sem hún er með, og Læknavaktin fær 46 millj. kr. viðbótarfjárheimild. Það endurspeglar vandann sem við eigum við að etja í íslensku heilbrigðiskerfi, vanda sem verður að bregðast við og leysa. Hann leysum við ekki með því að setja allt í einkarekstur, heldur með því að taka stjórnina á kerfinu og þora að taka ákvarðanir sem kunna að vera erfiðar og krefjast mikillar pólitískrar forustu.

Ég harma að í fjáraukanum sjái stjórnarmeirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ekki sóma sinn í því að styðja við bakið á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, sem veitir hér lífsbjargandi þjónustu, bráðaþjónustu. Ég harma að ekki sé bætt í hvað varðar heilsugæsluna, sem er ódýrasta og aðgengilegasta heilbrigðisþjónustan, því að þær stofnanir sem ég taldi upp hér taka nú á sig aukinn fjölda sjúklinga vegna aukinnar þjónustuþarfar sem er vegna breyttrar aldurssamsetningar og fólksfjölgunar, en fá það ekki bætt á meðan starfsemi sem minni stjórn er á fær fé. Hér er það nefnilega þannig að ef einhver kemur heim úr námi og er sérfræðingur í ákveðinni grein getur hann opnað stofu án þess að fyrir liggi nokkur greining á þörfinni fyrir aukna þjónustu á því sviði. Hins vegar vitum við að það er gríðarleg þörf fyrir heimilislækningar og þjónustu annarra heilbrigðisstétta í heilsugæslunni og fyrir eflingu á mannafla Landspítala. En því mætum við ekki heldur þörf sem við vitum ekki hvort er til staðar.

Herra forseti. Við getum ekki haldið áfram að koma svona fram við heilbrigðiskerfið okkar, kerfi sem allir Íslendingar eru sammála um að eigi fyrst og fremst að vera í opinberum rekstri og eigi að vera fjármagnað af skattfé og að forgangsraða eigi skattfénu í þann málaflokk.

Fyrst við tölum um einkavæðingu þá fer hún fram án þess að þurfa að koma fyrir Alþingi. Við þurfum að einsetja okkur að breyta því, því að stefnubreyting sem þessi á grunnstoð samfélagsins verður að fá umræðu á þingi.

Það sama á við um menntamálin. Við lesum á bls. 65 í frumvarpinu, undir lið 516, um Iðnskólann í Hafnarfirði. Þessi ríkisrekni skóli var sameinaður einkaskóla, Tækniskólanum, án þess að um það færi fram nokkur stefnumarkandi umræða á Alþingi, því að menntamálaráðherra hefur lögum samkvæmt heimildir til þess að fara með það eins og hann vill. Því þarf líka að breyta, herra forseti. Íslendingar vilja að gagnsæi og greining ríki varðandi breytingu á rekstrarformi á grunnstoðum íslensks samfélags, heilbrigðis- og menntakerfinu.

Herra forseti. Nú ætla ég að fara yfir í flóttamannamálin. Ég lagði hér fram í upphafi þings, ásamt megninu af þingmönnum minni hlutans, tillögur um að við tækjum á móti a.m.k. fimm hundruð flóttamönnum á þremur árum að þessu ári meðtöldu. Ríkisstjórnin brást við með útspili um að 2 milljarðar yrðu settir inn í þann málaflokk, en vildi ekki nefna tölur um fjölda flóttamanna sem við mundum taka á móti. Nú koma 775 millj. kr. af þeim 2 milljörðum sem falla eiga til á tveimur árum, inn á fjáraukalög. Ég er mjög ósátt við það sem þar blasir við, herra forseti. Hvað á að setja í móttöku flóttamanna af því? Innan við 10% af fjárhæðinni eiga að renna til móttöku flóttamanna. Við búum við einstakar aðstæður varðandi flóttamannastraum vegna stríðsástands í Sýrlandi og víðar þar sem Evrópa hefur ekki litið annan eins flóttamannavanda frá því í síðari heimsstyrjöld. Og Íslendingar ætla að leggja 75 millj. kr. í það púkk, í móttöku fólks. Það er algjörlega óásættanlegt.

Nú á að koma hér hópur fólks fyrir jól, sem er ánægjulegt og hafa sveitarfélög brugðist vel við. Í það eiga þessar 75 millj. kr. að fara. Síðan eiga 250 millj. kr. af þessum 775 millj. kr. að fara í alþjóðastofnanir. Það er gott. Þar er verið að bregðast við og hjálpa í nálægð við vandann og hjálpa þeim stofnunum sem takast á við þessi mál nær svæðunum þar sem uppruni flóttamannavandans er. En síðan koma hér 450 millj. kr. vegna hælisleitenda. Ég er mjög sátt við að sett sé viðbót inn í þann málaflokk, en það kemur til af því að hælisleitendum hér er að fjölga. Í fjárlögum yfirstandandi árs var þörfin fyrir fjármuni vanáætluð. Það lá fyrir í upphafi árs að bæta þyrfti fjármunum inn í þann fjárlagalið, en nú eru þeir 2 milljarðar sem var lofað sem sérstökum viðbrögðum, að stórum hluta nýttir til að vinna upp syndir ríkisstjórnarinnar á yfirstandandi fjárlagaári. Það er til skammar og við verðum að sýna meiri ábyrgð gagnvart þessum vanda. Okkur ber siðferðisleg skylda til þess. Við getum ekki leikið apa- og slönguleik þegar svo mikilvæg mál eru í húfi. Það bíður fjárlagaumræðunnar. En ég get ekki betur séð en að fjármunir fyrir næsta ár til að taka á móti flóttamönnum séu það litlir að í raun eigi varla að taka á móti kvótaflóttamönnum nema þessum tæplega hundrað flóttamönnum. Það er alls ekki boðlegt, herra forseti.

Það er ekki nema von að ríkisstjórnin tali eins og raun ber vitni, að tölurnar séu ekki aðalatriðið, því að auðvitað vill enginn opinbera svona snautlega tölu, að við ætlum að taka hér á móti innan við hundrað manns sem flýja með börnin sín frá hrikalegum aðstæðum í von um að koma þeim í skóla og geta fengið að vinna fyrir sér í friði án þess að þurfa að óttast hræðilegar upplifanir og um líf sitt. Þó að það sé ánægjulegt að þessir fjármunir komi inn hefðu þeir átt að vera miklu meiri því að þarna er verið að bæta upp gamlar syndir en ekki að koma með nýtt fé nema að litlu leyti.

Þá komum við að barnabótunum, herra forseti. Hv. þingmenn Oddný Harðardóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Brynhildur Pétursdóttir skipa þríeyki minni hlutans í fjárlaganefnd. Þær eru algjörlega frábærar í störfum sínum, vinna samstillt, eru vandaðar og setja sig inn í mál og skila okkur nefndarálitum sem eru afskaplega gagnleg. Þar fer minni hlutinn ágætlega yfir barnabæturnar. Við skulum muna að þegar verið var að hækka matarskatt á íslenskar fjölskyldur var Framsóknarflokkurinn friðaður, honum fannst það erfitt. Framsóknarmönnum fannst erfitt að auka álögur á íslensk heimili með þessum ömurlega hætti. Það eru ekki síst lífeyrisþegar og leigjendur sem hækkun matarskatts bitnar harðast á. Þá var lofað hverju? Jú, það átti að hækka húsaleigubætur um 400 millj. kr. Það hefur verið svikið, herra forseti. Ekki ein króna af þeim 400 millj. kr. hefur skilað sér til fólks til mótvægis við hækkun matarskatts. Það var lygi í Framsóknarflokknum. Framsóknarflokkurinn lét Sjálfstæðisflokkinn ljúga að sér og hefur sætt sig við það. Ráðherra þeirra sem fer með málaflokkinn hafði ekki fyrir því að breyta reglunum til þess að skila fólki, leigjendum, þessum 400 millj. kr. og hafi hún skömm fyrir.

Svo kemur að barnabótunum. Jú, það átti að setja inn fjármuni í barnabæturnar til þess að hjálpa tekjulágum barnafjölskyldum að mæta hækkun á matarverði. Hverjar voru efndirnar í því? Jú, það voru kannski einhverjar 200, 300, 400 millj. kr. sem skiluðu sér af þeim 1.200 sem lofað var. Nú er verið að lækka barnabæturnar um 600 millj. kr. því að ríkisstjórnin jók skerðingarnar á móti hækkuninni og náði þannig að spara sér svolítið fé á efnaminnstu barnafjölskyldunum. Það er forgangsröðun hægri stjórnar ríkisstjórnar hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Og það er andstyggilegt að verða vitni að því að það sé aðferðafræði sem beitt er í ríkisfjármálum þegar ríkissjóður hefur rétt úr kútnum eftir erfiðisvinnu Samfylkingar og Vinstri grænna, þegar íslenskt hagkerfi er í góðum gangi eru þetta skilaboðin til þeirra sem ætti að forgangsraða fjármunum til. En hið opinbera heilbrigðiskerfi, flóttafólk, leigjendur og efnaminni barnafjölskyldur, og ég kem inn á lífeyrisþegana á eftir, það er það sem skilið er eftir sem og stór hluti menntakerfisins.

Ég vona að einhver framsóknarmaður svari fyrir það hér í umræðunni um fjárlög eða fjáraukalög af hverju þau hafa ekki staðið vörð um barnafjölskyldur og leigjendur samhliða því sem þau hækkuðu matarskattinn. Þau lugu að fólki. Hafi þau ekki ætlað sér að ljúga að fólki vil ég að þau komi hér og segi okkur hverjar ástæðurnar fyrir því eru, að mótvægisaðgerðir upp á milljarð vegna matarskatts hafa ekki skilað sér, á meðan hæst launaða fólkið á Íslandi, eignamesta fólkið á Íslandi og útgerðaraðallinn fá hverja gjöfina á fætur annarri svo tugum milljarða skiptir.

Nú kem ég inn á breytingartillögu minni hluta fjárlaganefndar, hv. þingkvenna sem ég nefndi áðan. Þær leggja til fyrir hönd okkar í minni hlutanum að hækkun bóta almannatrygginga verði afturvirk til 1. maí 2015, rétt eins og launafólk fékk hækkanir sínar þá í kjarasamningum. Sú aðgerð kostar 6,6 milljarða. Það eru 6,6 milljarðar sem ríkisstjórnin ætlar að hafa af lífeyrisþegum þessa lands. Það eru örorkulífeyrisþegar sem vegna sjúkdóma geta ekki unnið fyrir sér nema þá einhverjir að litlu leyti, og ellilífeyrisþegar. Þetta bitnar auðvitað harðast á þeim sem reiða sig alfarið eða að miklu leyti á bætur Tryggingastofnunar. Það er allverulegur hópur.

Þarna leggjum við til að í stað þess hækkunin taki gildi um næstu áramót taki hún gildi frá og með 1. maí 2015. Eftir að þingmenn hafa fengið launahækkun eftir úrskurð kjararáðs frá og með 1. mars 2015 vil ég horfa framan í þann þingmann sem ætlar að neita gömlu fólki og veiku fólki um hækkun fyrir sambærilegt tímabil. Það verður fróðlegt að sjá hvernig atkvæðagreiðslu vindur fram um þá tillögu.

Nú skulum við tala um 6,6 milljarða, herra forseti, því að hvað er að gerast? Jú, það gengur vel á Íslandi. Atvinnuleysi fer minnkandi, það er næga atvinnu að hafa, það eru fjárfestingar í gangi, það er uppbygging í íslensku samfélagi. Það skilar sér auðvitað í auknum tekjum í ríkissjóð. Og bara í gegnum veltuskatta, sem eru skattur á virðisauka, vörur og þjónustu, aukast skatttekjur ríkisins á þessu ári um hvað, herra forseti? Jú, 6,6 milljarða. Það er nákvæmlega það sem það kostar okkur að tryggja lífeyrisþegum sambærilegt tímabili í hækkunum á tekjum.

En hvað ætlar hægri stjórnin að gera? Jú, hún ætlar vissulega að borga niður skuldir og lækka vaxtakostnað og það er glæsilegt. En hún er líka að vinna að því að minnka umfang ríkissjóðs í hagkerfinu. Það er munurinn á hægri og vinstri, herra forseti, að við vinstra megin í stjórnmálunum viljum öflugan ríkissjóð til þess að fjármagna greiðslur almannatrygginga, barnabætur, vaxtabætur, húsaleigubætur, menntakerfið, heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið og löggæsluna. En þeir sem eru hægra megin í stjórnmálunum álíta mikilvægara að ívilna þeim tekjuhærri með lægri sköttum en draga úr hinni almennu, opinberu þjónustu sem gagnast okkur öllum og býr til betra og jafnara samfélag. Þannig að 6,6 milljarðarnir eru ekki nýttir fyrir lífeyrisþega, heldur til þess að lækka skatta á alþingismenn og þeirra líka.

Herra forseti. Það verður fróðlegt að sjá hér í atkvæðagreiðslu hvað stjórnarþingmenn gera gagnvart þessum tillögum. Það verður fróðlegt að sjá hvað Framsóknarflokkurinn, sem búinn er að svíkja barnafjölskyldur og leigjendur, ætlar að gera gagnvart lífeyrisþegum. Ég trúi því ekki að þau styðji ekki þessar tillögur, annars er siðferðisþrek þeirra jafnvel minna en mig óraði fyrir.