145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:00]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu.

Það er auðvitað mjög mikilvægt að gæta að pólitísku samhengi þess sem hér er rætt þótt um sé að ræða, að sumra mati, nánast formsatriði þegar um er að ræða það að við sem förum með fjárveitingavaldið stöndum frammi fyrir orðnum hlut, stöndum frammi fyrir því sem þegar er gert af hendi framkvæmdarvaldsins, ákvörðunum sem eru teknar annars staðar og í raun og veru eru ákvarðanir þegar allt kemur til alls ekki á okkar valdi. Það væri með réttu hægt að halda því fram að sumt af þessu væri óttaleg leiksýning, þ.e. að við skulum láta hér eins og við ráðum einhverju um það, til að mynda hvort settar séu 850 milljónir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða eða að 1,3 milljarðar til nýframkvæmda í vegagerð, sem hvort tveggja eru ákvarðanir sem okkur er tilkynnt um í fjölmiðlum og af brosandi ráðherrum á miðju ári, sem þar með hunsa algjörlega fjárstjórnarvald Alþingis, að ég tali nú ekki um eðlilega stefnumörkun og lögbundið ferli eins og til að mynda í gegnum samgönguáætlun. Það eru í sjálfu sér vinnubrögð sem eru hláleg og maður veltir fyrir sér trúverðugleika slíkra vinnubragða annars vegar og svo hins vegar hástemmdra áforma um að koma á miklum aga í ríkisrekstrinum og utan um fjárlagagerð undir flaggi opinberra fjármála.

Ég mundi vilja biðja hv. þingmann að reifa afstöðu sína til þeirra mótsagna sem við stöndum frammi fyrir. Hins vegar langar mig að biðja þingmanninn, vegna þess að hún þekkir vel til bæði í sænskum stjórnmálum og um stöðu velferðarmála hér á landi, að fjalla um stöðu barnabótakerfisins, annars vegar þar sem fyrirmyndirnar eru sterkastar og bestar, sem eru á Norðurlöndum og kannski helstar í Svíþjóð, og svo hins vegar það hvernig barnabótakerfið er útleikið í stöðunni akkúrat eins og við horfum (Forseti hringir.) á hana í dag.